Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:53:58 (5546)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:53]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Síðustu orð hv. þm. Atla Gíslasonar í ræðustól voru kannski eins konar lokaorð fyrir þessa umræðu og segja kannski allt sem þarf að segja.

Ég vil í umfjöllun minni um nýtt frumvarp til samkeppnislaga fá að vísa til ágætrar umfjöllunar hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessari umræðu, hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Atla Gíslasonar. Ég tek undir það sem þeir lögðu áherslu á, að farið verði hægt í að setja lög af því tagi sem hér eru til umræðu. Ég tek reyndar undir sjónarmið hv. þm. Atla Gíslasonar um að réttast væri að draga frumvarpið til baka. Það hefur komið hingað til kynningar og er ágætt að dreifa því sem kynningarplaggi en það fái síðan miklu ítarlegri umræðu án þrýstings á að það verði keyrt í gegn sem lög. Hv. þingmaður færði rök fyrir því. (PHB: Hvað með starfsmennina?) Já, já. Starfsmennirnir vinna gott verk og ef þeim væri sagt að þetta væri ekki að skella á hvað úr hverju mundi óvissunni létta. En ég kem aðeins að starfsmannamálunum seinna, herra forseti, vegna spurningar hv. þingmanns.

Þau atriði sem ég vildi gera að umtalsefni varða stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar sem ætlunin er að breyta. Ég vil vekja athygli á því að lagt er til að stofnunin verði áfram A-hluta stofnun. Ég vona að hæstv. ráðherra leiðrétti mig ef það er rangt. Hún á að vera A-hluta stofnun sem fær fjármuni sína beint af fjárlögum ríkisins. Þar um gilda ákveðin lög og siðvenjur um fjárhagslega ábyrgð forstöðumanna gagnvart ráðherra og Alþingi. Forstöðumenn A-hluta stofnana eru m.a. embættismenn og almennt hafa kjör þeirra verið ákveðin af kjaranefnd eða Kjaradómi, eftir því hvernig verkast vill. Þeir hafa því lotið hinum almennu lögum og reglum um forstöðumenn. Hér er gerð breyting á því þannig að stjórn sem ráðherra skipar fái það hlutverk að ráða og bera ráðningarlega ábyrgð á forstjóra. Ég leyfi mér að spyrja: Er þetta stjórnsýslulega rétt fyrir A-hluta stofnun? Þar hefur verið lögð áhersla á að ábyrgðin gagnvart framkvæmdarvaldinu sé einföld og skýr, með stuttum boðleiðum þannig að Alþingi geti líka sótt upplýsingar gegnum ráðherrann um viðkomandi A-hluta stofnun. Þannig hefur þetta verið og mikilvægt að svo verði áfram til að tryggja gagnsæja stjórnsýslu. En nú er gerð tillaga um að forstöðumaðurinn verði ráðinn af stjórn og beri ábyrgð gagnvart stjórninni, ekki gagnvart ráðherranum. Stjórnin ber ábyrgðina gagnvart ráðherranum.

Vegalengdin frá Alþingi til framkvæmdastjóra viðkomandi A-hluta stofnunar lengist og auk þess kemur upp stjórnsýslulegur vafi á því hver beri ábyrgðina ef eitthvað kemur til. Tökum til dæmis fjármálalega ábyrgð. Stjórnin ber ábyrgð á stofnuninni gagnvart ráðherranum þar sem hún ber ráðningarlega ábyrgð á forstjóranum. Fjármálaleg ábyrgð. Ja, við skulum segja að forstöðumaðurinn færi fram úr fjárlögum og þyrfti að veita honum áminningu eða spyrja um hvers vegna það hafi gerst. Þá er ekki við forstöðumanninn að eiga heldur stjórnina. (Gripið fram í.) Stjórnin, í hvaða röð á að reka stjórnina? Stjórnin ber ábyrgð gagnvart ráðherranum og ráðherrann getur ekki kallað forstöðumanninn til sín. Hann getur kallað stjórnina til sín og stjórnin ber lagalega ábyrgð á gerðum forstöðumanna gagnvart ráðherra, að mínu mati. Ég mundi vilja fá þetta nákvæmlega útlistað, stjórnsýslulega ábyrgð hvers og eins. Yrði ekki að raða stjórnarmönnum í röð, að þessi væri númer eitt og yrði fyrst rekinn fyrir glappaskot eða fengi fyrst áminningu, þessi væri númer tvö og fengi næstu áminningu o.s.frv.?

Það er mjög erfitt að deila stjórnunarlegri ábyrgð með þeim hætti sem þarna er gert. Ég vil þess vegna spyrja ráðherrann: Hvernig er þessari stjórnsýslulegu ábyrgð hagað? Ég legg áherslu á það líka að þegar málið fer í nefnd verði kannað nákvæmlega hver stjórnsýsluleg staða forstöðumanns og stjórnar sé gagnvart starfsmannalögum, gagnvart lögum um fjárreiður ríkisins og öðrum þeim lögum sem snerta einmitt umgjörð A-hluta stofnunar. Það er allt annað ef stofnunin fær fjármagn í gegnum eigin rekstur og ber ábyrgð á sér þannig en hér er um A-hluta stofnun að ræða og ég tel mjög mikilvægt að bæði ríkislögmaður og þeir sem hafa með höndum að fylgjast með því hvort farið sé að lögum um starfsmenn ríkisins kanni þessa réttarstöðu.

Hvers vegna getur þessi forstjóri ekki tekið laun samkvæmt Kjaradómi eða kjaranefnd? Hvers vegna þarf að semja sérstaklega um ráðningarkjör hans? Hvers vegna? Þetta er nánast einsdæmi í A-hluta stofnun sem hér er verið að leggja til og ég velti fyrir mér: Hver er staða þessa forstjóra? Er hann embættismaður? Er hann embættismaður ríkisins og gilda um hann lög og reglur um embættisgengi ríkisstarfsmanna? Það er mjög mikilvægt að þetta sé skýrt og þá ábyrgð hvers og eins í þessu tilviki. Er tilgangurinn með þessari ráðningu sá að geta greitt hærri laun? Það geta svo sem verið rök að þessi forstjóri þurfi að fá að vera á öðrum ráðningarkjörum til að hægt sé að greiða honum önnur laun og aðrar sporslur en viðgengst innan embættismannakerfisins á grundvelli Kjaradóms og kjaranefndar. Er þessi ráðning óháð úrskurði Kjaradóms og kjaranefndar? Er það svo, og hvers vegna er þá verið að ráða forstjóra fyrir A-hluta stofnun með þeim hætti? Ég held að það sé nauðsynlegt að svar komi við því og þá einnig gagnvart öðrum forstöðumönnum A-hluta stofnana. Hvers eiga þeir að gjalda ef ætlunin er að greiða þarna hærri laun eða vera með önnur ráðningarkjör fyrir þessa aðila og ekki einhverja aðra? Er þetta þá í samræmi við meðalhófsreglur og að það sé jafnrétti á milli A-hluta stofnana í stjórnsýslulegri umgjörð? Kröfurnar eiga a.m.k. að vera mjög líkar.

Hér hefur verið rætt um þessa stjórnsýslulega stöðu og eins og nú er heyrir hún beint undir ráðherrann. Forstöðumaðurinn heyrir beint undir ráðherra og þannig kemst Alþingi beint að vinnu stofnunarinnar og ákvörðunum hennar, í gegnum ráðherrann vegna þess að hann ber ráðherralega ábyrgð á starfi hans þó að hann hafi ekki afskipti af daglegum störfum hans. Forstöðumaðurinn ber sjálfur ábyrgð á þeim á grundvelli ráðningarsamnings síns en Alþingi getur með beinum hætti átt aðgang að upplýsingum og öðru því um líku sem það vill fá að vita um þessa A-hluta stofnun í gegnum ráðherrann. Með breytingunum verður það miklu torveldara þannig að það er verið að fjarlægja stofnunina frá Alþingi. Alþingi á erfiðara með að sækja upplýsingar sem verða fyrst að fara í gegnum ráðherrann og síðan gegnum stjórn stofnunarinnar og svo til forstöðumanns. Bara þessi þáttur einn styður það sem hér hefur verið haldið fram um að þessi lög miði að því að veikja Samkeppnisstofnun og stöðu hennar gagnvart almenningi, færa hana frá almenningi, frá Alþingi. Að breyta aftur undirstrikar það.

Við höfum að vísu nokkuð tilsvarandi um Fjármálaeftirlitið þó að það hafi samt í raun markaðan tekjustofn frá fjármálalífinu. Engu að síður er það með nokkuð líkum hætti. Hefur það gefist vel? Nei, það hefur nefnilega ekki gefist vel.

Tökum umsögn Bjarna Ármannssonar á fundi sem haldinn var um gegnsæi Fjármálaeftirlitsins. Útdráttur úr því og umfjöllun birtist í Morgunblaðinu 11. janúar sl. Þar eru raktar ýmsar ástæður fyrir því að Fjármálaeftirlitið sé mjög veikt enda er það altalað. Morgunblaðið hefur eftir Bjarna Ármannssyni, með leyfi forseta:

„Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, minnti áheyrendur á að fjármálamarkaður á Íslandi ætti sér mun styttri sögu en sams konar markaðir erlendis. Þar af leiðandi væru ekki margar hefðir ekki fullmótaðar.“

Hann leggur áherslu á að það verði að koma hefðir, það verði að koma viðskiptasiðferði svo að ég noti mitt orð. Síðan segir í viðtalinu við Bjarna:

„Nokkuð sem að hans mati ylli því að Fjármálaeftirlitið væri undir stöðugu álagi að halda í við hinn ört vaxandi fjármálamarkað. Í máli Bjarna kom fram að þetta gæti verið ástæða þess að Fjármálaeftirlitið nýtur ekki þeirrar virðingar sem því ber og að sumir markaðsaðilar færu oft inn á grá svæði, og það jafnvel viljandi.“

Í orðum Bjarna Ármannssonar og reyndar fleiri í þessari umfjöllun var lögð áhersla á að hefðir þyrftu að skapast og að engin lög gætu komið í stað góðra viðskiptahefða. Staða Fjármálaeftirlitsins væri allt of veik. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum einmitt flutt þingsályktunartillögu um að sérstaklega verði skoðuð stjórnsýsluleg staða Fjármálaeftirlitsins með það að markmiði að efla sjálfstæði þess og stöðu og að skipuð verði sérstök nefnd til að fara yfir það. Þar ætti að skoða m.a. hvort ekki væri vert að flytja Fjármálaeftirlitið frá framkvæmdarvaldinu og undir Alþingi.

Hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um að þetta gæti orkað tvímælis. Auðvitað getur það gert það. Þessi leið var þó valin með Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun heyrði undir fjármálaráðherra, undir framkvæmdarvaldið alveg fram undir 1990 en þá var ákveðið að setja hana undir Alþingi. Ég held að allir þingmenn séu sammála um að það hafi verið heillaspor. Ég held að enginn þingmanna hér mundi leggja til að Ríkisendurskoðun yrði færð til baka undir einhvern ráðherrann, ekki einu sinni hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég hef ekki trú á að hann mundi gera það. En hann hefði kannski með sömu rökum lagst hér gegn því að það ætti að skoða að Samkeppnisstofnun eða Fjármálaeftirlitið færi undir Alþingi. Það er ekkert ótrúlegt að sömu rökum hefði verið beitt á sínum tíma ef við stæðum nú frammi fyrir því að taka ákvörðun um það hvort Ríkisendurskoðun ætti að fara undir Alþingi.

Ég tel alveg fyllilega brýnt og réttmætt að nú verði farið ofan í stöðu þessara eftirlitsstofnana, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisstofnunar, Vinnueftirlitsins líka þó að það sé allt annað. Það lýtur að þessum mikla innflutningi á fólki, þó sérstaklega að því sem snýr að fjármála- og viðskiptalífinu. Það á að skoða þetta heildstætt, ekki stökkva á eitt og eitt út af því að stofnunin hafi gengið eitthvað langt í að grafa upp samráð meðal olíufélaganna og það þurfi að refsa henni svipað og gert var með Þjóðhagsstofnun sem gaf út stöðu efnahagsmála. Þess vegna var hún lögð niður. Eru þetta vinnubrögð sem við eigum að búa við? Mér finnst það miður. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna að þetta séu einu hugsanlegu rökin, enda hefur hæstv. ráðherra ekki borið á móti því, hún hefur ekki lagt fram þarfagreiningu fyrir því hvers vegna verið sé að ráðast í þessar breytingar. Hefur hún lagt hana fram? Hefur hún gert grein fyrir henni? Hefur hún gert grein fyrir því hvers vegna þarf að ráða þennan forstjóra allt öðruvísi en alla aðra forstöðumenn ríkisstofnana? Nei. Enga grein gert fyrir því. Einu rökin eru: Af því bara. (LB: Það er meðalhófið.) Já, meðalhófið já. (LB: Það er eitthvert óhóf sem hann hefur ...) Já. (LB: Hvort óhófið var innrás til olíufélaganna eða ekki, það er ekki gott að segja.) Nei. Þetta er alveg hárrétt, frú forseti, og án þess að maður megi fara að vitna í einhverjar vísur sem snúa að allt öðru málefni getur þetta samt verið alvarlegt. Einhvern tíma lærði ég vísu sem lýtur að meðalhófsreglunni. Hún getur verið hættuleg og vandmeðfarin eftir því hvernig hver skilur hana. Hún var svona, með leyfi forseta:

Hófdrykkjan er heldur flá,

henni er valt að þjóna.

Hún er bara byrjun á

að breyta manni í róna.

Þannig eru meðalhófsreglur í höndum ýmissa, það er ekki alveg ljóst hvar þær enda.

Frú forseti. Ég kom hér fyrst og fremst til að draga athyglina að hinni stjórnsýslulegu stöðu þessara stofnana sem hér er verið að ræða um, þetta er A-hluta stofnun sem hingað til hefur verið reynt að gæta að sé mjög sterkur og ákveðinn stjórnsýslulegur rammi utan um. Hún fer beinar boðleiðir milli Alþingis, ráðherra og stofnunar án þess að verið sé að gera því skóna að það sé einhver meiri hætta á að hafa áhrif á störf stofnunarinnar. Þetta snýr alls ekki að því enda er viðkomandi forstöðumaður ráðinn samkvæmt ráðningarsamningi.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins. Mér finnst að þetta ætti að skoða heildstætt, þessar stóru eftirlitsstofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki en við þurfum líka að gefa hefðum rúm, viðskiptasiðferðinu. Við höfum enn fremur lagt fram frumvarp um það að starfsleyfi banka, fjármálastofnana, fjármálafyrirtækja eigi að einskorðast við afmarkaða starfsemi en að eitt og sama fjármálafyrirtækið geti ekki með beinum eignatengslum og beinum ráðstöfunum rekið margháttaðan atvinnurekstur.

Kannski ætti að huga að svona lagasetningu til að styrkja viðskiptasiðferðið í landinu. Var ekki í fréttum um helgina að Landsbankinn væri kominn með eignarhald í KB-banka, KB-banki í Íslandsbanka, og hvernig var þetta, Einbjörn í Tvíbjörn, Tvíbjörn í Þríbjörn og Þríbjörn í Fjórbjörn? Hver átti svo hvað? Svo þóttust þessar stofnanir vera í samkeppni. Væri ekki nær að skoða þessi atriði og þessa lagaumgjörð heildstætt? Það eru hagsmunir almennings. Alþingi er vörsluaðili hagsmuna almennings og þessi lög eru á ábyrgð Alþingis sem og starfsemi þessara stofnana.