Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:14:20 (5547)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:14]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður lét að því liggja að Samkeppnisstofnun hefði gengið of langt í sambandi við olíufélögin og þess vegna væri verið, eftir því sem mér skildist, að ná sér niðri á stofnuninni. Málið átti að heita að snúast um það. Það er alveg fáránlegt að halda þessu fram og ég veit að hv. þingmaður trúir því ekki sjálfur þótt hann segi það hérna.

Síðan vildi ég aðeins koma inn á þessa meðalhófsreglu sem hefur verið til umfjöllunar. Hún er mikilvægt og lögbundið ákvæði í stjórnsýslulögum. Það er ekki bara að það sé góð stjórnsýsla, heldur ber stjórnsýslunni að beita meðalhófsreglu. Það er ekki rétt að gera lítið úr því.

Hvað varðar væntanlegan forstjóra Samkeppniseftirlitsins er hann ekki embættismaður eins og kemur fram í frumvarpinu og ekki meira um það að segja. Hann er þá óháður Kjaradómi.

Fleira var það sem hv. þingmaður nefndi. Um stofnunina sem slíka er sama skipulag viðhaft og hvað varðar Fjármálaeftirlitið. Ég hef ekki heyrt betur í þessum sal en að þingmenn séu mjög jákvæðir gagnvart Fjármálaeftirlitinu og telji það skipulag sem þar er viðhaft vera til fyrirmyndar. Síðan þegar gerð er tillaga um að fara sömu leið hvað varðar Samkeppniseftirlitið er eitthvað allt annað upp á teningnum og menn reyna að finna því allt til foráttu. Ég átta mig ekki alveg á þessu, mér finnst ekki vera samræmi í málflutningnum.