Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:16:21 (5548)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:16]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þarna liggi einmitt hundurinn grafinn, að hæstv. ráðherra áttar sig ekki á þessu. Ég held að vandinn sé að hæstv. ráðherra átti sig ekki á þessu.

Í fyrsta lagi legg ég til að hæstv. ráðherra athugi stjórnsýslulega stöðu forstöðumannsins betur og stöðu hans sem vörsluaðila ríkishagsmuna. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra átti sig á því að um A-hluta stofnun er að ræða, það er engin breyting á því, sem hefur allt sitt fjármagn frá ríkisvaldinu og fjárlögum og lögð er þung áhersla á hina beinu línu frá Alþingi, í gegnum ráðherrann og til A-hluta stofnunar. Við þekkjum það sem vinnum að fjárlagagerð að við fáum og getum kallað til okkar forstöðumenn A-hluta stofnana til að fara yfir með þeim ýmislegt sem lýtur t.d. að rekstri. Vegurinn nú verður miklu flóknari og ekki alveg séð hvernig hann getur gengið fyrir sig og ég bið hæstv. ráðherra að skýra út hvernig tengslin verða á milli Alþingis, ráðherrans og stofnunarinnar við einstök atriði.

Varðandi Fjármálaeftirlitið sem hæstv. ráðherra kom inn á höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt til að staða Fjármálaeftirlitsins verði endurskoðuð með það í huga að styrkja það og efla og ég vitnaði áðan til ummæla þekkts bankastjóra þar sem lögð er áhersla á sama atriði.