Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:18:46 (5549)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:18]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Eftir umræður dagsins stendur þrennt eftir: Í fyrsta lagi er verið að skerða heimildir til að taka á samkeppnismálum. Í öðru lagi er verið að setja yfirfrakka á forstjóra stofnunarinnar og í þriðja lagi er verið að auka fjármuni til málaflokksins og tími til kominn að það sé gert.

Í allri umræðunni í dag hefur hæstv. ráðherra ekki tekist að útskýra hvers vegna er verið að þessu. Að vísu er skiljanlegt að auka þurfi fé í málaflokkinn. Það sjá allir. Það er með ólíkindum að stofnunin sé rekin þannig að það taki 16 mánuði að meðaltali að fá úrskurðinn. Það er ekki hægt að una við það og heldur ekki að það taki á annað ár að mál séu tekin til meðferðar. Þess vegna er nauðsynlegt að taka málaflokkinn í gegn og skoða hann en ég er alls ekki viss um að lausnin sé að skerða heimildir og setja einhvern yfirfrakka á forstjóra stofnunarinnar. En það er gert með þeim orðum að verið sé að einfalda stjórnsýsluna. Þetta eru alger öfugmæli og ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra er með öfugmæli. Skemmst er að minnast þess þegar raforkulögin voru kynnt. Það átti að vera mikið hagræði að því en það virðast allir tapa og síðan voru það ekki hundrað krónu hækkanir eins og verið var að boða heldur tugþúsunda hækkanir sem raforkunotendur sem hita hús sín með raforku þurfa að greiða aukalega.

Fleiri mál má nefna eins og þegar hætt var að jafna sement. Þá var sagt að það yrði óveruleg hækkun en reyndist 70% hækkun sem ég hefði talið að væri veruleg hækkun. Það er mjög erfitt að ræða þessa hluti málefnalega við hæstv. ráðherra því þegar maður er í ræðustól og kemur með rök máli sínu til stuðnings er maður jafnvel sakaður um rangfærslur, rétt eins og í umræðunni um daginn um lýðræðið. Þá sakaði hæstv. ráðherra mig um að vera með rangfærslur. Ég óskaði ítrekað eftir því að hæstv. ráðherra skýrði út hvað ég hefði farið rangt með vegna þess að ég vil síst af öllu vera að endurtaka einhverjar rangfærslur og mér finnst það vera skylda hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir hv. þingmönnum þegar hún telur að þeir fari með rangt mál.

Annað sem stendur uppi úr í umræðunni og er að mörgu leyti átakanlegt er afstaða Sjálfstæðisflokksins. Svo virðist sem margir sjálfstæðismenn telji að samkeppnislög séu einhver óþurftarlög, en ég tel að til að tryggja heilbrigt atvinnulíf og vöxt þess og að það verði einhver endurnýjun sé rétt að setja leikreglur og vanda sig við það. Sérstaklega ætti það að vera ungum sjálfstæðismönnum umhugað því ef þeir meina eitthvað með því sem þeir segja um að koma á auknum einkarekstri og eitt og annað þarf að hafa einhverjar reglur þannig að ungir menn geti jafnvel smeygt sér inn í atvinnurekstur. Það er einmitt það sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt mikla áherslu á og þess vegna teljum við málaflokkinn mjög mikilvægan. Þess vegna leggjum við einnig áherslu á ýmis önnur mál, eins og vera ekki að selja grunnnetið með Símanum því þá er verið að selja einokunaraðstöðu. Þetta tengist málinu vegna þess að þegar ákveðið var að selja Símann var einmitt talað um það í nefndaráliti meiri hlutans að nauðsynlegt væri að efla samkeppnisstofnanir sem hefðu eftirlit með því og fyrirtækin sem eiga í samkeppni við Símann, sem er ríkisrekinn, vilja einmitt að grunnnetið sé aðskilið. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki farinn að átta sig á þessu og oft á tíðum er jafnvel ómerkilegur málflutningur þar sem gefið er í skyn að Samkeppnisstofnun hafi fengið fúlgu fjár þegar staðreyndin er allt önnur. Það eru svipuð stöðugildi og voru fyrir áratug og allir sjá að málaflokknum hefur ekki verið sinnt í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Það er ákveðin afstaða sjálfstæðismanna til málaflokksins sem maður áttar sig ekki heldur á. Þegar sjálfstæðismenn eru spurðir á þingi hvort fyrirtæki í eigu almennings fari að samkeppnislögum er bara snúið út úr og engu svarað. Ég er með svar frá hæstv. fjármálaráðherra og er með ólíkindum að hann hafi ekki meiri metnað fyrir því að koma á samkeppni og svo er í hinu orðinu verið að tala um að flokkurinn sé flokkur frjálsrar samkeppni. Það eru alger öfugmæli. Ef flokkurinn meinti eitthvað með því mundi hann auðvitað beita áhrifum sínum til að koma á virkri samkeppni á fjarskiptamarkaði, mundi hann aðskilja grunnnetið frá samkeppnisrekstri og hefði metnað fyrir því að ríkisfyrirtækið Síminn færi að samkeppnislögum.

Fleiri mál má nefna. Það er mjög sérstakt að verða ítrekað vitni að því að hv. þingmenn Vinstri grænna virðast vera miklu meira fylgjandi því að heilbrigð samkeppni sé í atvinnulífinu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn virðist bara vera að slá skjaldborg utan um ráðandi fyrirtæki og stærri fyrirtæki. Við horfum ítrekað á þetta. Við höfum rætt um aðskilnað veiða og vinnslu. Sjálfstæðismenn sáu því allt til foráttu að menn stæðu jafnir í samkeppni um hráefni og þá var það ekki hægt. Síðan er varla hægt að setja samkeppnislög með svipaðar heimildir og erlendis fyrir Sjálfstæðisflokknum vegna þess að menn þykjast svo heilagir hér að það megi ekki brjóta niður fyrirtæki, eins og þeir orða það, brjótast inn í hús þar sem eru konur og börn, eins og það er orðað. En fyrir nokkrum mánuðum fór flokkurinn hamförum við að brjóta niður eitt ákveðið fyrirtæki. Ég tel að skoða þurfi afstöðu flokkanna í heild, bæði það að Framsóknarflokkurinn hafi haldið Samkeppnisstofnun í fjársvelti og látið hana drabbast niður.

Ég er á því að endurskoða þurfi ýmislegt í skipulagi stofnunarinnar og rétt sé að skoða það. En að segja að verið sé að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar og auka það með því að setja þrjá menn yfir forstjórann skipaða af ráðherranum er bara vitleysa. Nær væri að forstjórinn byði sig fram og væri kosinn, rétt eins og í Ameríku. Þá hefði hann vald frá almenningi eða að hann heyrði undir Alþingi. Og það er alls ekki eitthvert fyrirmyndarfyrirkomulag hjá Fjármálaeftirlitinu, eins og fram hefur komið í umræðunni. Bent hefur verið á það, m.a. af erlendum fyrirlesara á góðri ráðstefnu, að það sé ekki hentugt að hún sé of tengd pólitískum öflum.

Ég tel umræðuna að mörgu leyti ágæta því hún afhjúpar stjórnarflokkana algerlega. Verið er að koma með einhver samkeppnislög sem eru varla fugl né fiskur og þegar frekar þyrfti að herða róðurinn í að ná utan um þessi mál koma einhver þokukennd frumvörp um að setja yfirfrakka á mann sem virðist þó hafa tekið til hendinni í olíumálinu og fleira. Það sem stendur upp úr í umræðunni er að allar útskýringar hæstv. ráðherra eru mjög ótrúverðugar. Það verður að segjast eins og er.