Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:39:30 (5551)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:39]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar var allsérstæð, eins og reyndar sumar aðrar ræður sem hafa verið fluttar við umræðuna í dag. Mér fannst þegar ég hlustaði að verið væri að tala um eitthvert annað frumvarp en það sem hér liggur frammi vegna þess að það er einkennandi að verið er að snúa út úr og teygja og toga málin án þess að fyrir því séu færð skynsamleg rök. Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna í því sambandi.

Í fyrsta lagi er eins og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi sammælst um að reyna að gera þær breytingar sem eru fyrirhugaðar samkvæmt frumvarpinu á skipulagi samkeppnismála tortryggilegar á þeirri forsendu að verið sé að búa til einhverja pólitíska tengingu, að verið sé að færa Samkeppniseftirlitið undir pólitíska stjórn en ekkert í frumvarpinu gefur tilefni til þess. Það sem um er að ræða er að verið er að auka sjálfstæði stofnunarinnar, taka út samkeppnisráð sem ráðherra hefur skipað fram að þessu, setja í stað þess stjórn sem á að ráða forstjóra og hafa umsjón með meginstefnumörkun stofnunarinnar. Hins vegar er ábyrgð á málsmeðferð og ákvarðanatöku í þeim málum sem tekin eru til rannsóknar sett á ábyrgð þessa forstjóra sem á að sjálfsögðu að starfa sjálfstætt í staðinn fyrir að sú nefnd eða það ráð sem ráðherra skipar fari efnislega yfir mál og taki efnislega afstöðu eins og er í dag.

Ég fæ ekki séð með hvaða rökum hægt er að halda því fram að með þessu sé verið að auka á einhvern hátt pólitísk inngrip í starf stofnunarinnar. Ég átta mig engan veginn á því hvernig hv. þingmenn, þar á meðal hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, fær það út.