Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:46:10 (5554)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:46]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þjónar kannski ekki miklum tilgangi að skattyrðast við hv. þingmann. Ég verð þó að játa að með því að vilja slíta hin pólitísku tengsl, með því að setja upp þessa stjórn, hlýtur hv. þingmaður að meina að í dag séu pólitísk tengsl, annars þyrfti ekki að höggva á þau. Það verður ekki skilið öðruvísi. Það að stjórn komi í staðinn fyrir samkeppnisráð, hvaða einföldun er það?

Virðulegi forseti. Það er afar erfitt og hefur reyndar verið í allan dag, erfitt að reyna að draga fram kjarna málsins og tilganginn með því. Umræðan í dag hefur kannski bara afhjúpað að þetta eru einhvers konar viðbrögð við niðurstöðu nefndar sem skipuð var til að fara yfir íslenskt viðskiptalíf. Flokkarnir náðu ekki saman. Niðurstaðan varð sú að frjálshyggjuöflin í Sjálfstæðisflokknum urðu ofan á, að líklega væru lögmál frumskógarins besta leiðin sem hægt væri að fara, a.m.k. eru þeir einir um að fagna.

Því stendur eftir, sem hæstv. viðskiptaráðherra á eftir að svara: Á hvaða ferðalagi er hæstv. ráðherra? Hver er tilgangurinn með þessu? Hæstv. ráðherra svaraði því hvorki í framsöguræðu né í andsvörum. Hæstv. ráðherra skuldar þinginu upplýsingar um á hvaða ferðalagi hæstv. ráðherra er. Það verður að segjast eins og er að þingheimur bíður spenntur eftir skýringum.