Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:56:03 (5556)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:56]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er verið að einfalda stjórnsýsluna á sviði samkeppnismála. Það er tilgangur frumvarpsins og við höfum átt fundi með forsvarsmönnum stofnunarinnar um þau mál.

Meðalhóf í stjórnsýslunni, það er lögbundið. Eins og fram kemur í textanum eru meiri háttar mál borin undir stjórn. Það er óskilgreint í frumvarpinu hvað eru meiri háttar mál. Það eru hlutir sem stjórnin mun koma sér saman um þegar hún hefur verið skipuð. Þetta er með svipuðu sniði og hjá Fjármálaeftirlitinu sem hv. þingmaður hefur oft hælt í þessum þingsal og talið hina bestu stofnun.

Hvað varðar það að stjórnarmenn uppfylli hæfisskilyrði þá er það í frumvarpinu en hins vegar er tekið út ákvæði sem varðar það að þeir eigi ekki beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi til að geta setið í stjórn Samkeppniseftirlitsins. Það kemur til af því að það er þrengjandi, mjög hamlandi, að hafa þetta ákvæði inni þar sem það þýðir í raun að þar gætu ekki aðrir setið í stjórn en embættismenn og fræðimenn.

Í sambandi við hringamyndun, sem hv. þingmaður eða aðrir nefndu fyrr, eru samkeppnislögin að hluta til lög gegn hringamyndun. Þarfagreiningin kemur í raun fram í umsögn fjármálaráðuneytisins þar sem fram kemur hversu mikið fjármagn þurfi. Unnið var með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar að þeirri þarfagreiningu.

Þegar hv. þingmaður spyr um framtíð þess forstjóra sem nú situr þá get ég að sjálfsögðu ekki svarað til um það vegna þess að eins og augljóst er þá er það stjórn verðandi eftirlits sem ræður forstjóra.