Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:58:16 (5557)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er engu nær eftir svör hæstv. ráðherra. Hér liggur ekkert fyrir um hvort verið er að búa í haginn til að skipta um forstjóra. Það er bara vísað á þessa nýju stjórn sem væntanlega verður pólitískt skipuð. Það liggur ekkert fyrir um ástæðurnar fyrir því að nauðsynlegt sé að bera meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina. Síðan er það upplýst að stjórnin sjálf á að skilgreina hvað eru meiri háttar ákvarðanir.

Ég spyr líka um kostnaðargreininguna. Ég óska eftir að fá þetta plagg. Er hæstv. ráðherra að segja að þessar 60 millj. kr. séu það sem Samkeppnisstofnun taldi nauðsynlegt? Var það í samræmi við álit hennar að 60 millj. kr. og sjö stöðugildi væru það sem þyrfti? Ég vil fá þessa úttekt inn í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég spyr hvort hægt sé að fá hana inn í efnahags- og viðskiptanefnd og hvort hæstv. ráðherra haldi því fram að þetta sé sú niðurstaða sem forstöðumenn stofnunarinnar komust að, að nægjanlegt væri að setja í hana 60 millj. kr. (Gripið fram í.) þegar forstjórinn hefur upplýst nefnd þingsins um að 100 millj. kr. þurfi til að hún geti sinnt hlutverki sínu.

Hæstv. ráðherra segir að hún hafi átt fund með forráðamönnum stofnunarinnar. Ég spurði hvort haft hafi verið samráð við þá um þessar breytingar. Ég geri ráð fyrir að ráðherrann hafi átt fund með forráðamönnunum og sýnt þeim þessar niðurstöður, en var haft samráð við þá um þessar breytingar?

Síðan svaraði ráðherrann ekki því sem ég spurði um fyrr í dag, hvort hún teldi að setja ætti þak á þann tíma sem fjármálafyrirtæki geta verið virk í rekstri fyrirtækja. Það skiptir máli þegar rætt er um hringamyndanir og fleira sem tengist þessum lögum. Ég óska eftir svörum hæstv. ráðherra við því.