Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 19:02:09 (5559)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[19:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsi furðu minni á svörum hæstv. ráðherra. Það er raunverulega óþolandi fyrir okkur þingmenn sem reynum nú við 1. umr. málsins að fá upplýst svör frá ráðherranum til þess að greiða fyrir starfi nefndarinnar að fá nánast engin svör. Þetta eru engin svör sem við fáum hér. Þetta eru meira og minna útúrsnúningar og tal út í loftið og maður er engu nær hversu oft (Gripið fram í.) sem maður kemur í pontu til þess að fá svör frá hæstv. ráðherra.

Af hverju getur hæstv. ráðherrann t.d. ekki svarað því hvort við fáum þá þarfagreiningu sem var gerð í samráði við stofnunina? Er þar eitthvað að fela? Ég mun ganga mjög hart eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd að fá þessa þarfagreiningu vegna þess að ég held að hún sýni allt annað en þær 60 milljónir sem ráðherrann er hér að tala um.

Ráðherrann veit hreinlega ekki af hverju nauðsynlegt er að setja það inn að bera eigi allar meiri háttar aðgerðir og ákvarðanir undir stjórnina. Það eru engin rök, ekki nokkur einustu rök.

Það sem situr raunverulega eftir, virðulegi forseti, er að Framsóknarflokkurinn hefur verið beygður í þessu máli af Sjálfstæðisflokknum sem í þrem veigamiklum atriðum knúði ráðherrann og Framsóknarflokkinn til breytinga á þessu frumvarpi sem munu veikja verulega Samkeppnisstofnun og sjálfstæði hennar. Þar á ég ekki síst við húsleitarákvæðið. Ég á líka við hæfisskilyrðin sem eru náttúrlega alveg furðuleg og ef vísað er í Fjármálaeftirlitið þá eru allt önnur hæfisskilyrði þar varðandi stjórnina. Og síðan er tekið út eina ákvæðið sem getur hjálpað Samkeppnisstofnun við að taka á hringamyndun.

Þetta er nú uppskeran eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið tvo, (Forseti hringir.) þrjá mánuði með málið í nefnd, þ.e. að Framsóknarflokkurinn hefur eina ferðina enn verið beygður.