Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins

Fimmtudaginn 10. mars 2005, kl. 11:34:25 (5661)


131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:34]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra að mat í þessum efnum hlýtur að liggja hjá hv. Alþingi. Það er mikilvægt að Alþingi taki upplýsta ákvörðun í þessu efni eftir umræðu.

Eiginlega er um tvö atriði að ræða í þessu, annars vegar kannski það tiltekna mál sem hér um ræðir, þær tilteknu heimildir sem er verið að framselja, og þegar efnisatriði málsins eru skoðuð má velta fyrir sér hversu praktískt það er, þ.e. hversu mikið muni á þetta reyna í framkvæmd. Rök hafa verið færð fyrir því að þetta kunni að verða tiltölulega ópraktískt, þ.e. að lítið muni á það reyna. Hins vegar er prinsippið í málinu þess eðlis, spurningin um framsal fullveldis svo mikilvæg, að hjá því verður ekki komist að þær nefndir þingsins sem um málið fjalla fari gaumgæfilega ofan í efnisatriði þess.