Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins

Fimmtudaginn 10. mars 2005, kl. 11:38:51 (5664)


131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:38]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það ekki mitt að segja fyrir um það með hvaða hætti nefndir vinna að málinu, þær hafa allt það svigrúm sem þær hafa í því efni og mundu ekki taka því vel, hygg ég, ef þær fengju einhver fyrirmæli úr ráðuneyti um það efni. Sjálfstæði þingsins sér um þá þætti og ég treysti nefndunum fyllilega til að fjalla um þau atriði.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þessi álitaefni koma mjög við sögu einmitt í því frumvarpi sem nú er til meðferðar og hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir. Þeim sjónarmiðum sem ég var að gera grein fyrir var fylgt eftir enda fylgdi greinargerðin einnig því máli til þingsins.

Út af fyrir sig hefði verið hugsanlegur kostur í málinu að Stjórnarráðið sem slíkt legði endanlegt mat á álitsgerð lögvísindamannsins, af eða á þegar ákvörðun er tekin um framlagningu mála. Ég hygg þó að það sé meira í samræmi við stjórnskipunarhefðir okkar að fela þinginu það vald en ekki Stjórnarráðinu, hins vegar koma öllum upplýsingum á framfæri við þingið þannig að það hafi alla burði til að fjalla faglega um efnið, eins og hv. þingmaður leggur áherslu á. Ég held að forsendur séu vel fyrir hendi til þess að gera það. Út af fyrir sig hefði þingið getað kallað eftir slíkum álitsgerðum en þá hefði það kallað á meiri tíma og annað þess háttar. Þess vegna var sjálfsagt að undirbúa það fyrir fram.