Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins

Fimmtudaginn 10. mars 2005, kl. 11:47:35 (5670)


131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:47]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mörg þeirra laga sem sett hafa verið hafa verið til afskaplega mikilla bóta fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt þjóðlíf á margan hátt. Hins vegar þar sem vísað er í ákveðnar stofnanir Evrópusambandsins þá mundi ég vilja skoða hvort ekki sé hægt lagatæknilega að hafa slíkt framsal eða slíka tilvísun tengda samningnum. Það er það sem ég átti við, að þar sem vísað er til stofnana Evrópusambandsins og þar sem þær hafa áhrif og beint vald inn á íslenskt atvinnusvæði og lögsögu, að þar sé sett inn ákvæði, skilyrt ákvæði, að það ákvæði laganna gildi á meðan samningurinn er í gildi. Þetta er náttúrlega spurning um lagatækni og ég varpa því fram hvort slíkt væri mögulegt.