Útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 18:15:33 (5871)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl.

217. mál
[18:15]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég er meðflutningsmaður að þeirri tillögu til þingsályktunar um útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur mælt fyrir. Ég tel efni hennar afar brýnt. Það er samfélagsleg skylda okkar að sjá til þess að útsendingar á vegum Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, nái til allra landsmanna. Það er mikilvægt til að tengja okkur vel saman, hefur mikla þýðingu í menningarlegu tilliti og í öryggistilliti líka.

Einnig er mikilvægt að þessar útsendingar nái til sjómanna meðfram ströndum landsins og ekki hvað síst líka er ástæða til að huga að hinum fjölmörgu Íslendingum og öðrum sem vilja fylgjast með því sem er að gerast hér, bæði í fréttum, menningarlífi og öðru, hvar sem þeir eru í heiminum. Við höfum á vissan hátt sameiginlegar skyldur gagnvart þessu fólki þegar tæknin er líka komin til þess að hægt sé að láta það verða að raunveruleika. Þess vegna ber okkur að axla þá ábyrgð að sjá til þess að útsendingar á sjónvarpi og hljóðvarpi Ríkisútvarpsins okkar nái til sem flestra landsmanna hvar sem þeir eru búsettir í heiminum. Það er alveg sjálfsagt og réttmætt að þessi krafa, ósk og skylda fylgi Ríkisútvarpinu, útvarpi allra landsmanna.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, frú forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur ítarlega mælt fyrir málinu og rakið efni þess. Það er brýnt mál og gott, þetta er hluti af því að tengja okkur saman sem eina þjóð hvar sem við annars erum niður komin, inn til dala, út til stranda, á hafi úti eða í fjarlægum löndum.