Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð

Miðvikudaginn 16. mars 2005, kl. 14:35:27 (5935)


131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[14:35]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir mjög margt í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Ég tel að þetta mál sé mikið framfaramál fyrir byggðirnar við utanverðan Eyjafjörð. Við í Frjálslynda flokknum, sem er umhugað um sjávarbyggðirnar og höfum fulla trú á sjávarútveginum, að hann megi efla og að hann verði byggðunum á ný mikill styrkur, tökum heils hugar undir þetta mál.

Hv. þingmaður nefndi Fiskvinnsluskólann. Ég er einmitt mikill áhugamaður um að efla menntun á sviði fiskvinnslutækni. Í framhaldi af því að við erum að ræða hér menntamál við utanverðan Eyjafjörð væri fróðlegt að fá skoðanir hv. þingmanns á þeirri ráðstöfun að þetta nám var lagt niður. Voru það ekki í raun mikil mistök hjá stjórnvöldum? Þess vegna ber einmitt að huga að því að taka upp þetta nám að nýju, jafnvel á Dalvík, og það gæti þá hugsanlega tvinnast saman við framhaldsskólann og orðið Dalvík og byggðunum þar í kring til heilla.