Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð

Miðvikudaginn 16. mars 2005, kl. 14:37:05 (5936)


131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[14:37]

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek nú undir orð hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar sem er kannski ekki á hverjum degi, þ.e. að við deilum sömu skoðunum. Við erum báðir flutningsmenn að þessari tillögu til þingsályktunar sem hljóðar akkúrat á þann veg að umræddur framhaldsskóli muni leggja sérstaka áherslu á sjávarútvegsnám og vísa ég þar í þá forsögu að í Dalvíkurbyggð var mjög öflugur fiskvinnsluskóli. Því miður skilst mér að aðsóknin að umræddum skóla hafi verið orðin dræm. Hann var reyndar lagður niður fyrir mína tíð hér á Alþingi þannig að ég þekki þá forsögu ekki nákvæmlega en veit það af samtölum við forustumenn Dalvíkurbyggðar að niðurlagning skólans var mikið áfall fyrir Dalvíkurbyggð.

Þess vegna held ég að fiskvinnslu- og stýrimannanám við umræddan skóla muni styrkja verulega starfsemi þessa skóla. Eins og ég fór yfir er fjöldi íbúa við utanverðan Eyjafjörð síst minni en á öðrum sambærilegum stöðum á landinu þar sem blómlegir framhaldsskólar hafa risið og eru starfandi í dag. Því held ég að við gætum horft fram á það að öflugur framhaldsskóli geti risið við utanverðan Eyjafjörð. Við hv. þingmaður erum sammála um það.