Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.
Dagný Jónsdóttir (F):
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir framsöguna. Ég er ein af meðflutningsmönnum þessarar tillögu og finnst einmitt mjög mikilvægt eins og fram kom hjá hv. þingmanni að samstaða ríki meðal þingmanna allra flokka um þetta mál. Ég held að það sé afar mikilvægt þegar um slík mál er að ræða.
Hv. þingmaður fór yfir flestalla þætti málsins og óþarfi að endurtaka það. Mér finnst þó rétt að ítreka í þessu að reynslan frá Snæfellsnesi sýnir okkur að þetta er vel hægt. Ég skoðaði starfsemina í þessum nýjasta framhaldsskóla okkar í haust og verð að segja að hún er afar blómleg. Skólinn hóf starfsemi í haust og þar eru, eins og fram kom, 115 nemendur. Góður andi ríkti meðal krakkanna sem ég hitti þar og þau voru að sjálfsögðu afar ánægð með að geta stundað nám þarna, ekki fjarri heimabyggð. Sú er einmitt fyrst og fremst hugsunin á bak við þessa tillögu, að gera nemendum kleift að stunda nám sem næst heimabyggð. Við sem höfum upplifað það að hafa þurft að fara fjarri heimilum okkar til að stunda nám þekkjum erfiðleikana. Það er spurning hvort maður hafi verið tilbúinn 16 ára gamall til að fara að heiman til Reykjavíkur og í skóla en ekki treysta sér allir í það. Það sem við verðum líka að muna er að ekki hafa allir möguleika á því. Fólk hefur ekki allt efni á því að senda börnin sín í framhaldsskóla, ekki síst ef þau eru mörg á framhaldsskólaaldri. Þá er að sjálfsögðu mikill kostnaður samfara því að halda uppi nemendum, jafnvel á heimavistum, sem þurfa að vera í fæði annars staðar.
Varðandi þetta mál held ég líka að það sé mjög mikilvægt að huga að því að tilvist lítilla framhaldsskóla er mikilvæg. Við sjáum það þegar við förum í þessa skóla að mikil nálægð er meðal starfsmanna og nemenda og nemendurnir eru ánægðir sem er auðvitað fyrir mestu. Stórir skólar henta sumum og litlir öðrum. Þess vegna er mjög mikilvægt að öll flóran sé til staðar. Við sjáum t.d. í Framhaldsskólanum á Laugum og á fleiri stöðum að virkilega gaman er að koma þangað og fylgjast með því starfi sem þar fer fram.
Hv. þingmaður kom einnig inn á þetta með skólabæinn Akureyri. Við höfum orðið vör við ákveðna gagnrýni þar en það er mikilvægt að huga að því að þar eru gríðarlega öflugir og sterkir skólar sem ég held að þurfi ekki að hafa áhyggjur af því þó að rísi lítill framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð. Eins og er fara nemendur burtu af svæðinu, þ.e. þeir sem fara í nám. Við skulum samt ekki gleyma því að þar er fullt af fólki, krökkum, sem ekki fer í nám. Ég held að ef þessi tillaga yrði til þess að mun fleiri færu í nám og lykju því væri tilganginum algjörlega náð. Eins og kom fram hér áðan er brottfall meðal þessara nemenda í skólum meira en gerist og gengur.
Ég held að þegar til langs tíma er litið muni enn fleiri nemendur skila sér í gegnum framhaldsskólakerfið og þar af leiðandi í frekara nám, hvort sem það er háskólanám, iðnnám eða enn annað, og það mun að sjálfsögðu efla Akureyri fyrst og fremst vegna þess að fólk mun vonandi leita þangað.
Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að fara nánar í þetta. Ég vildi bara lýsa ánægju minni með þetta mál, enda tel ég að þetta sé mikilvægt fyrir framhaldsskólaflóruna. Við skulum muna að aðdragandinn er langur og ég vona innilega að málið nái fram að ganga.