Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.
Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):
Virðulegi forseti. Þetta má alveg falla undir andsvar til þess að stytta tímann enn frekar en ég fagna því fyrst og fremst að svona tillögur eru fluttar. Uppbygging framhaldsskólanna á landsbyggðinni skiptir svo miklu máli félagslega eins og komið hefur fram, bæði hjá framsögumanni og hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur sem talaði hér á undan. Andsvar mitt er í raun og veru alls ekkert neikvætt. Það er jákvætt í þetta sinn. Ég held að sá málflutningur sem kemur hér fram frá tillögumönnum, hv. þingmönnum, sýni það og sanni enn frekar að við þurfum að byggja upp öflugt framhaldsskólakerfi vítt og breitt um landið.
(Forseti (JóhS): Forseti vill taka fram að það er mikilvægt að þegar beðið er um andsvar sé það andsvar við ræðu þess þingmanns sem hefur talað þar á undan.)