Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.
Ögmundur Jónasson (Vg):
Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni, Birki J. Jónssyni, fyrir að hafa forgöngu um að hrinda þessu máli inn í þingsali. Eins og fram hefur komið, nú síðast hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller, er þverpólitísk samstaða um það. Menn hafa gert ágætlega grein fyrir málinu sem gengur út á að stofnaður verði framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð, skóli sem sérhæfi sig í sjávarútvegsmenntun og færð eru ágæt rök fyrir því í þingsályktunartillögunni hvers vegna ástæða sé til að setja niður skóla á þessum slóðum, sem beini sjónum sínum að sjávarútveginum fyrst og fremst og liggur í rauninni í augum uppi miðað við allar landfræðilegar og atvinnulegar forsendur.
Menn hafa bent á að þetta snúist um byggðapólitík. Þetta snýst um réttlæti. Ef við ætlum að treysta byggð í landinu þarf að bjóða fólki á framhaldsskólaaldri menntun í heimabyggð sinni, það segir sig sjálft. Að öðru leyti vísa ég í þann rökstuðning sem hefur komið fram við málið.
Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni að flutningsmenn þingsályktunartillögunnar koma allir úr Norðausturkjördæmi nema einn, þar á meðal eru tveir þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman. Enda þótt flutningsmenn séu allir úr Norðausturkjördæmi fer því fjarri að ég skilgreini þetta sem einhvers konar pot kjördæmisins eða í slíkum anda. Ég tel að víðtækur stuðningur sé fyrir þessu framfaramáli hér á þinginu hjá þingmönnum hvaðanæva að af landinu.
Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en vek athygli á því að þverpólitískur stuðningur er við málið og í heimabyggð er einnig mikill stuðningur við að það nái fram að ganga.