Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð

Miðvikudaginn 16. mars 2005, kl. 15:10:02 (5944)


131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[15:10]

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok umræðunnar þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls um tillöguna fyrir stuðninginn við að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Þingmenn frá öllum þingflokkum sem eiga sæti á Alþingi hafa tekið þátt í umræðunni sem sýnir að það er vilji innan allra þingflokka til þess að setja á fót framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Enda ef það er grandskoðað finnast óvíða jafnfjölmennar byggðir og við utanverðan Eyjafjörð sem ekki hafa aðgang að framhaldsskólamenntun.

Ég rifjaði það upp í fyrri ræðu minni að íbúar við utanverðan Eyjafjörð eru um 4.500 talsins. Það er mun meiri fjöldi en til að mynda á Snæfellsnesi þar sem heppnaðist mjög vel að stofna á síðasta hausti framhaldsskóla, Framhaldsskóla Snæfellinga, sem fékk mjög góða aðsókn og gengur allt í haginn það að ég best veit. Það er líka staðreynd að í Þingeyjarsýslum eru tveir glæsilegir framhaldsskólar. Þar býr ámóta fjöldi íbúa og við utanverðan Eyjafjörð. Það er því mjög óvíða á landinu þar sem við finnum jafneinangruð sveitarfélög og byggðirnar eru við utanverðan Eyjafjörð, sveitarfélög sem munu með fyrirhuguðum jarðgöngum um Héðinsfjörð tengjast miklum böndum og hafa mikið samstarf í framtíðinni, að það er hreinlega einboðið að við hefjumst handa við að stofna framhaldsskóla á þessu svæði.

Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Möller að það getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt að flytja 400 einstaklinga á aldrinum 16–20 ára til að hefja nám á framhaldsskólastigi fjarri heimabyggð sinni. Það getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt. Við vitum líka hvaða áhrif þetta hefur á viðkomandi byggðarlög. Þetta dregur allan kraft úr viðkomandi byggðarlögum þegar þetta unga og glæsilega fólk fer úr bæjarfélögunum, þá breytist yfirbragð bæjarins.

Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þegar hann talaði um að hærra menntunarstig tryggði hærri laun. Við skulum tala hreint út um hlutina. Samkvæmt öllum opinberum gögnum er það svo að því miður hefur launaþróun á landsbyggðinni ekki haldið í við þá kjaraþróun sem hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sýna öll opinber gögn. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur stjórnmálamennina að jafna lífskjör í landinu. Það gerum við með því m.a. að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og auka aðgengi ungs fólks að umræddu námi.

Við hljótum að fagna því sérstaklega að hér hafa fulltrúar úr flestöllum kjördæmum landsins tekið til máls og lýst yfir stuðningi sínum við málið. Því vil ég fagna sérstaklega og tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að þetta er ekkert sérstakt kjördæmamál. Þetta er mál sem er þjóðhagslega hagkvæmt fyrir þjóðarbúið og það er þjóðhagslega hagkvæmt að byggja landið. Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt að allir flytjist á suðvesturhorn landsins. Ég held við séum öll sammála um það. Því er mjög mikilvægt að stuðla að því að viðhalda öflugri byggð við utanverðan Eyjafjörð.

Við horfum á það hvaða áhrif stofnun framhaldsskóla, m.a. á Húsavík, og hv. þm. Halldór Blöndal fór ágætlega yfir það í máli sínu áðan, hafði á sínum tíma. Við sjáum líka hvaða áhrif framhaldsskólinn í Reykjadalnum hefur á það litla samfélag sem þar er, er algjör burðarás í atvinnulífinu á viðkomandi stað og við horfum á mikla uppbyggingu og uppgang í Grundarfirði.

Við ætlum að horfa á viðlíka þróun eiga sér stað við utanverðan Eyjafjörð. Því fagna ég sérstaklega þeim undirtektum sem hér hafa verið í salnum í dag. Ég vil einnig ítreka að ég held að það muni skýrast varðandi framgang tillögunnar á Alþingi og það muni endurspeglast í afgreiðslu tillögunnar hvort stjórnvöld séu reiðubúin að byggja áfram upp þekkingu og menntun á landsbyggðinni, sem er grundvallaratriði í framtíð þessara byggðarlaga. Það getur vel verið að slæmt sé að segja það, en staðreynd er að störfum í fiskvinnslu mun halda áfram að fækka. Það er eðlileg þróun vegna þess að tæknin verður sífellt meiri í þeim atvinnugreinum og við þurfum færri hendur til að vinna verkin. Þetta er staðreyndin.

Því þurfum við að fjölga undirstöðuþáttunum í byggðunum. Ég segi: Meiri þekking og meiri menntun. Við skulum horfa til Íranna sem hófu mikla baráttu í byggðamálum á sínum tíma fyrir nokkrum árum. Nú er það þannig að mörg þekkingarfyrirtæki sjá sér hag í því að setjast að á landsbyggðinni á Írlandi. Þar hafa Írar byggt mjög myndarlega upp á því sviði.

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vil enda á því að svara hv. þm. Kristjáni Möller. Hann spurði mig hvort þingsályktunartillagan nyti ekki stuðning hæstv. ráðherra iðnaðar og viðskipta, Valgerðar Sverrisdóttur og hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég veit um mjög góðan hug þeirra til málsins, enda er þeim málið skylt. Við skyldum ætla það að miðað við þær undirtektir sem þetta málefni hefur hlotið á hinu háa Alþingi sé mjög víðtækur stuðningur við það. Ég hef sjálfur ekki innt hæstv. menntamálaráðherra persónulega eftir því hvort stuðningur sé við þetta málefni í ráðuneytinu en við vitum að þreifingar voru á árinu 2001 um að stofna þarna framhaldsskóla. Mér finnst það einboðið í ljósi þess að þetta er trúlega eitt fjölmennasta svæði á landinu í dag sem ekki hefur aðgang að framhaldsmenntun.

Ég ítreka að ég tel að við séum að hreyfa máli sem er þjóðahagslega hagkvæmt því það getur ekki verið hagkvæmt að flytja 400–500 unga nemendur úr umræddum byggðarlögum suður á land eða hvert sem er til að stunda framhaldsnám. Það getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt.