Lánasjóður landbúnaðarins

Þriðjudaginn 19. apríl 2005, kl. 20:48:09 (7624)


131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[20:48]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má sjálfsagt telja það tímanna tákn og hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, flytti frumvarp til laga um að einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins, leggja hann niður, selja hann og færa verkefnið yfir í einkarekstur og afskrifa þann félagslega fjárfestingarlánasjóð sem bændur byggðu upp og var um áratugi ein af kjölfestustofnunum í uppbyggingu íslensks landbúnaðar og hefur óumdeilanlega leikið mikið hlutverk.

Að sjálfsögðu er ekkert óumbreytanlegt og nýjar aðstæður geta kallað á nýjar lausnir. Það blasir við mönnum að rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins er erfiður í óbreyttri mynd, a.m.k. eins og aðstæður eru í augnablikinu og vegna utanaðkomandi áhrifa á starfsemi hans, sérstaklega þau gylliboð sem sumar bankastofnanir hafa allt í einu séð sér fært að veita vel völdum viðskiptavinum sjóðsins, svipað og ákveðnar bankastofnanir fundu allt í einu upp á síðsumars, að þær gætu boðið almenningi miklu hagstæðari lán til húsnæðiskaupa en þær höfðu áður látið hvarfla að sér. Vel að merkja gerðist það ekki fyrr en sömu bankastofnanir höfðu tapað máli fyrir Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þær hugðust knésetja Íbúðalánasjóð með þeim aðferðum. Þegar það tókst ekki fundu bankastjórarnir allt í einu forsendur í sínum ranni til að stórlækka vexti til íbúðalána, fara með hlutfall upp í 90% og síðan 100% um tíma og mætti margt um það segja.

Ég held því að menn ættu í fyrsta lagi áður en þeir hrapa að niðurstöðum í málinu, að greina svolítið ástæðurnar sem að baki liggja og velta því fyrir sér hvers vegna tvísýnar horfur séu um áframhaldandi rekstur stofnlánadeildarinnar um sinn. Er það eitthvað sem er endilega komið til með að vera?

Í öðru lagi verða menn auðvitað að spyrja sig að því, þó svo menn standi frammi fyrir einhverjum erfiðleikum, hvort einfaldasta leiðin að leysa þá erfiðleika sé að gefast upp, leggja niður skottið og gefast upp með það að landbúnaðurinn eigi sér trygga stofnfjármögnun til fjárfestinga og uppbyggingar í greininni sem tryggir aðilum jafnræði og aðgang að fjármagni án þess að þeir þurfi að ganga svipuð göng eftir aðstæðum hver fyrir sína lánastofnun og láta reyna á kjör sín þar.

Ég verð að segja alveg eins og er að þegar maður horfir til reynslunnar sem margir mæra mjög um þessar mundir af einkavæðingu bankanna og einkavæðingu fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, sjávarútvegsins og iðnaðarins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðan áfram leiðina í Íslandsbanka, eru tvær hliðar á því máli. Menn bera sig vel á veltitímum á meðan afkoma bankanna er góð og telja sig vera að sigra heiminn, en það er ekki sömu sögu að segja alls staðar á landsbyggðinni þar sem einyrkjar í útgerð eða menn sem eru að baksa við að byggja upp iðnað, utan við 101, segja. Ég geri ráð fyrir að hæstv. landbúnaðarráðherra, þó hann sé ekki nema af Suðurlandinu, þekki það að það hefur ekki verið þrautalaust hjá öllum sem fyrrum gengu að þessari grunnfjármögnun í atvinnuuppbyggingu sinni vísri. Ég veit dæmi um að menn hafa mátt berjast í bönkum í bókstaflegri merkingu mánuðum og jafnvel missirum saman til þess að fá fyrirgreiðslu til að fjármagna nýsmíði fiskiskipa, þó í boði væri 1. veðréttur í skipinu og jafnvel einhverjar veiðiheimildir að auki. Að vísu lyftist yfirleitt brúnin á bankastjórunum ef hægt er að setja kvóta einhvers staðar að veði.

Jafnvel 1. veðréttur í fínasta skipi varð skyndilega einskis virði þegar búið var að leggja niður Fiskveiðasjóð, svo maður tali ekki um erfiðleika iðnrekstrar úti á landi til að fá fyrirgreiðslu. Það þýðir lítið að bjóða upp á veð í húsnæðinu sem á að byggja eða vélunum sem á að kaupa. Ef póstnúmerið er hærra en 1 vandast málin. Það er því ekki að sækja í þá reynslu þó hún sé auðvitað blendin. Þó stærri fyrirtæki og þau sem eru orðin nægjanlega burðug til að leita jafnvel tilboða í bankaþjónustu komist ágætlega af er ekki slíku að heilsa í öllum tilvikum þegar í hlut eiga smærri einyrkjar í rekstri í sjávarútvegi og iðnaði sem áður nutu mjög góðs af því kerfi sem þar hafði verið uppbyggt. Fiskveiðasjóður skilaði t.d. viðskiptavinum sínum ákaflega hagstæðri fjármögnun í áratugi og endurgreiddi hluta af vaxtagreiðslunum yfirleitt um hver einustu áramót inn á reikning viðskiptavinanna. Það er önnur hlið á því máli sem minna er talað um þegar sigurlýsingarnar vella út úr fjölmiðlunum. Það eru verulegir erfiðleikar ákveðins hluta atvinnugreinanna sem urðu fyrir breytingunum og sérstaklega bundið eftir landshlutum.

Hvað halda menn þá með landbúnaðinn sem er í viðkvæmari og erfiðari stöðu á flestan hátt en eiginlega nokkur önnur atvinnugrein í landinu úti í hinu eiginlega strjálbýli landsins? Það er þá fyrst og fremst það eina veð sem þeir bændur enn hafa sem eiga sínar jarðir sem kynni að verða einhvers metið í dag vegna þess að það er í tísku að kaupa jarðir. Hæstv. landbúnaðarráðherra er ákaflega hrifinn af því að jarðnæði er unnvörpum að komast úr höndum þeirra sem stunda búskap í hendur einhverra stóreignamanna sem finnst fínt að eiga jarðir, jafnvel þó búsettir séu í útlöndum og líti þær eiginlega aldrei augum. En það er önnur saga.

Ég held að landbúnaðurinn gæti átt eftir að reynast í ákaflegra viðkvæmri stöðu þar sem dragi hratt í sundur með þeim sem eru með sínar jarðir best staðsettar þannig að þær séu líklegastar til að halda háu endursöluverði, sem hafa framleiðslurétt í þeim greinum sem búa við hann og fá stuðning frá ríkisvaldinu, og svo aftur hinum sem eru lakar settir, sem búa fjær slíkum svæðum og hafa ekki rótgrónar eignir eða framleiðsluréttindi til að setja að veði. Með öðrum orðum, hvernig verður staða ungra bænda sem ætla að byggja upp á afskekktri bújörð til þess að fá einhverja fyrirgreiðslu? Verður hún mjög burðug? Verður mikill áhugi á að lána í slíkt? Ég held að menn ættu að velta því aðeins fyrir sér áður en þeir taka þá afdrifaríku ákvörðun að slá þetta af.

Ég les það ekki út úr neinum þeim gögnum sem ég hef undir höndum varðandi málið að bændur séu með uppgerðan hug í því. Það er dálítið neyðarlegt að þurfa að lesa það í greinargerð með frumvarpinu þar sem svo er tekið til orða: „Verkefnisstjórnin telur að meta verði ályktun búnaðarþings þannig …“ Bíddu. Verið er að reyna að ráða í óljóst orðaða ályktun búnaðarþings sem var afgreidd við þær aðstæður að forsendur málsins lágu ekki fyrir, starfshópurinn hafði ekki skilað niðurstöðum.

Ég held því að skoða þurfi málið miklu betur og ræða það, m.a. verði bændum og landbúnaðinum að gefast tóm til þess að fara rækilega yfir hlutina og meta hagsmuni sína og velta því fyrir sér hver vænlegasta kosturinn í stöðunni er. Það er engin slík tímanauð á ferðum að hrapa þurfi stórkostlega að einhverri afdrifaríkri og óafturkræfri ákvörðun, því hún getur reynst það a.m.k. fyrir landbúnaðinn og búsetuna í hinum strjálu byggðum.

Mér finnst dálítið fljótræðislegt satt best að segja, þó menn hafi vaknað upp við vondan draum um áramótin og ráðherra skipað starfshóp í janúar sl., að leggja strax til fyrir miðjan aprílmánuð að gefast upp og selja sjóðinn, gefast upp og einkavæða lánasjóðinn. Ég sé hvergi þá kortlagningu á öðrum mögulegum ráðstöfunum og leiðum sem ég vildi sjá áður en ég veldi á mikilli slíkra kosta. Er ekki eðlilegt að gera það fyrst og leggja málið fyrir í ákvarðanatækum búningi fyrir Alþingi? Ég lít ekki á að það sé hér. Það lyktar af því að menn hafi gefið sér niðurstöðuna meira og minna fyrir fram, menn ráða eitthvert einkafyrirtæki, ráðgjafa og efnahagsspá, sem eðlilega miðað við tíðarandann lætur sér það helst til hugar koma að einkavæða sjóðinn, það er mjög í tísku, og virðist sem aðrir kostir hafi sáralítið verið skoðaðir.

Staðan er þannig að ójafnvægið er innbyggt í starfrækslu lánasjóðsins eins og hún er í dag. Hverjir bera ábyrgð á því? Þeir sem hafa stýrt málum hans undanfarin ár og búið til lánasafn hans og fjármagnað hann með þeim hætti sem raun ber vitni og er ákaflega ógæfulegt auðvitað þegar það blasir við mönnum að þarna geti komið upp stórkostleg hætta á verulegu ójafnvægi í rekstri sjóðsins vegna þess að hann er með föst óuppgreiðanleg lán, fjármagnar sig þannig, en bændur hafa hins vegar möguleika til að greiða upp lán sín og þá getur skapast ójafnvægi í vöxtunum. Sú staða er innbyggð og hverfur ekki þó menn einkavæði sjóðinn. Hver segir mönnum að menn fái einhvern til að kaupa hann sem horfi fram hjá veilunum, lækkar ekki bara söluverðið sem því nemur? Maður skyldi halda það.

Það sem lýtur að bættum rekstri sjóðsins og sparnaði í þeim efnum kemur mönnum auðvitað til góða. En ég skil ekki alveg hver hugsunin er í þessu, ef menn halda að það finnist kaupandi sem horfir fram hjá þessu ójafnvægi og getur tekið þannig við rekstri sjóðsins að sá vandi gufi bara upp. Er það hugsunin? Vill þá hæstv. landbúnaðarráðherra útskýra fyrir mér í hverju sú barbabrella verður fólgin því ég sé ekki af hverju einhver ætti að gera það.

Vandinn er á ábyrgð ríkisins. Lánin eru með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs, hin óuppgreiðanlegu skuldabréf, og eru til staðar og þau verður að virða hvernig sem á allt er litið. Séu líkur á því að vaxtastig og vaxtakjör þróist þannig og verði þannig á komandi árum að þarna verði verulegt misræmi á hverfur vandinn ekkert, þá verður einhvern veginn að bera hann og hann mun annaðhvort koma fram í lægra söluandvirði sjóðsins, ef hann verður seldur núna, eða að menn finni svo örlátan og miskunnsaman kaupanda að hann taki þetta yfir. Ég held að það þurfi aðeins að útskýra þetta betur. Ég er ekki hagfræðingur en maður hefur glímt við þetta dálítið m.a. í gegnum störf sín á þingi í yfir 20 ár og eitthvað segir mér að þetta sé ekki endilega hugsað í botn. Eru menn endilega að leysa vandann með þessu? Hverfur hann? Gufar hann upp í gegnum það að menn finni miskunnsama Samverjann einhvers staðar í fjármálaheiminum til að kaupa vandann af ríkinu sem þarna er til staðar. Við skulum kalla það hættu á eða lýkur á að þarna geti myndast ójafnvægi.

Svo skulu menn muna að það er ekki víst að núverandi vaxtastig og núverandi aðstæður verði um aldur og ævi. Hvað gerist ef gengi krónunnar fellur innan árs, innan hálfs árs jafnvel, um 20–30 af hundraði? Breytast þá ekki aðstæður talsvert? Jú, ætli það ekki. Eigum við þá ekki að kíkja á vextina, hvernig þeir verða þá? Er víst að bankarnir gangi þá um, bjóðandi með sama hætti sömu kjör og þeir hafa verið að gera? Nei, það er ekki alveg víst, aðstæður gætu nefnilega breyst verulega hvað varðar vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa og að það verði hægt að gera út á hann í öruggri vissu þess að stóriðjustefnan og skattalækkunarstefnan haldi uppi gengi krónunnar. Ef það bilar aðeins minnkar arðurinn af þeim útvegi, að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa í skjóli þess að genginu sé haldið uppi með handafli. Það getur mjög margt átt eftir að breytast hér innan jafnvel skemmri tíma en menn virðast gefa sér þegar þeir leggja niður fyrir sér forsendur þessa máls.

Ég held að það sé fljótræðislegt að gefa sér að þetta þurfi endilega að blasa við með sama hætti ef aðstæðurnar teiknast eins upp innan eins árs, jafnvel hálfs. Það er engin slík brennandi brýn nauð eða vá fyrir dyrum að þetta þoli ekki svolitla skoðun, herra forseti. Ég hvet eindregið til þess að það verði gert.

Það eru enda margir aðrir álitlegir möguleikar til þess að takast á við þá hluti sem takast þarf á við varðandi rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins. Það er t.d. alveg augljóst mál og það er rétt sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að þetta er lítil eining og rekstrarkostnaðurinn vill verða allt of hátt hlutfall af ekki stærri einingu þegar svoleiðis er, 80 milljónir eða hvað það nú er af ekki meiri veltu. Þar væri alveg augljóslega hægt að ná miklum samlegðaráhrifum, t.d. með því að samreka Lánasjóð landbúnaðarins og Lífeyrissjóð bænda eða fela einhverri burðugri stofnun á grundvelli samninga, þótt það væri útboð, að forvaxta sjóðinn og halda utan um hann. Annað eins hefur verið gert. Veðdeild Húsnæðisstofnunar sem svo hét í gamla daga var um árabil ekki rekin af Húsnæðisstofnun sjálfri. Reksturinn var boðinn út, reyndar fyrst á grundvelli samninga við Landsbankann en síðustu árin var umsjón hennar boðin út þangað til Íbúðalánasjóður varð til.

Þetta var mjög praktískt fyrirkomulag. Ég kynntist því. Ég sat í stjórn Húsnæðisstofnunar um skeið og tók þátt í því að meta þau mál og fara yfir og ganga frá því með hvaða hætti menn sömdu til ákveðins árafjölda í senn um þennan rekstur. Það var alveg borðleggjandi að það var til mikilla muna hagkvæmara en að reka þetta sem sjálfstæða, litla einingu, með yfirbyggingu, yfirstjórn og öðru slíku.

Önnur leið gæti verið fær, breyta mætti talsvert áherslum sjóðsins, gera upp þann vanda sem þarna er sannarlega til staðar, eða verður, láta bara á það reyna hver hann verður, hann er hvort sem er á ábyrgð ríkisins eins og stendur, en halda eftir ákveðnum grundvallarþáttum í þessari starfsemi sem gætu að verulegu leyti tryggt áfram þau markmið sem gera átti á sínum tíma með stofnlánadeildinni og síðar lánasjóðnum.

Svona grunnfjármögnunarsjóður sem þarf þá e.t.v. ekki að vera með jafnvíðtæka starfsemi og sjóðurinn hefur verið með að undanförnu, t.d. bara þannig að fjárfestingarlánaeining sem rekin væri í tengslum við Lífeyrissjóð bænda veitti jarðakaupalán tengd sjóðfélagalánum sem lífeyrissjóðurinn getur veitt, gæti myndað möguleika fyrir t.d. unga bændur gagnvart jarðakaupum og því að hefja búskap. Þegar menn væru síðan komnir lengra út í reksturinn væru þeir í allt annarri og betri stöðu til að leysa þau mál við viðskiptabanka sinn.

Svo koma að lokum, herra forseti, auðvitað upp margar spurningar sem tengjast þessari sölu, spurningar sem verður að fara rækilega yfir og svara áður en menn halda lengra. Ef menn ætla t.d. að gera þetta sisvona og selja sjóðinn bara einhverjum kaupanda, ætla menn þá að selja bændurna með á fæti og viðskipti þeirra? Ef kaupandinn verður fjármálastofnun sem hefur enga afgreiðslustaði og enga þjónustu á viðkomandi svæðum, segjum að bændur þar séu almennt í viðskiptum hjá sparisjóði en þetta væri Íslandsbanki eða KB-banki — einstöku manni hefur dottið í hug að það sé hugsanlegt að KB-banki eigi að fá hnossið — ætla menn þá að selja bændurna á fæti yfir í viðskiptin við KB-banka og 1. veðrétt í bújörðum þeirra með? Er það þannig sem menn hugsa sér að standa að þessu? Er þetta í raun og veru forsvaranleg leið þegar tekið er tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem hér er við að eiga?

Ég hef m.a. orðið var við það að bændur, margir hverjir, eru mjög órólegir þegar þessi staða fer að renna upp fyrir þeim. Þeir telja þrátt fyrir allt að það fyrirkomulag sem hér hefur verið hafi verið þeim hagstætt. Það er enginn vafi á því að þannig hefur það lengst af verið. Auðvitað hafa vaxtaniðurgreiðslurnar og gjöldin komið þar til. Þau hafa þýtt félagslega eða kynslóðarlega millifærslu innan greinarinnar sem hefur stutt við bakið á þeim ungu, þeim sem eru að byggja sig upp, og að sama skapi hafa þeir rótgrónari og ráðsettari í greininni lagt sitt af mörkum. Eðlilega. Að mínu mati hefur það verið félagslega merkilegt og jákvætt fyrirkomulag og mér er eftirsjá að því. Menn geta svo sagt að það sé allt saman misskilningur og liðin tíð og guð má vita hvað. Ætli menn endi ekki bara með því að fara að tala um hestasláttuvélarnar og moldarkofana ef maður leyfir sér að lýsa því sjónarmiði sínu að það geti verið eftirsjá að félagslegri hugsun og félagslegri samstöðu innan einnar stéttar af þessu tagi? Ég geri það nú samt og tek þá glaður við nafnbótunum sem því fylgja.

Það skyldu þó ekki vera ýmis sannindi sígild þegar betur er að gáð. Það er harmsefni hversu holt er orðið, vissulega, undir stuðningi við þessa hugsun hjá bændum. Maður skilur af hverju það er, vegna þeirra miklu erfiðleika sem greinin hefur gengið í gegnum og vegna þess að sumir hlutar greinarinnar hafa nánast ekki verið í aðstöðu til að fjárfesta eða byggja upp áratugum saman. Eðlilega spyrja menn sig þá t.d. í sauðfjárræktinni sem eru að greiða á löngu árabili þessi gjöld, en greinin er varla í aðstöðu til þess að fjárfesta eða byggja upp, hvort þeir eigi að búa við þetta endalaust. Það skyldi þó ekki vera að vonin um að þetta breyttist væri m.a. fólgin í því að þá ættu menn tryggan aðgang að fjármögnun til þessara fjárfestinga sem lýtur engum markaðslögmálum þegar komið er út í fjölskyldubúrekstur í strjálbýlinu á Íslandi. Ef það er einhvers staðar í heiminum sem markaðslögmálin og frjáls samkeppni leysa ekki allan vanda er það þar. Þetta ætti nú hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum að vita.