Lánasjóður landbúnaðarins

Þriðjudaginn 19. apríl 2005, kl. 21:27:56 (7626)


131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[21:27]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka þessa umræðu og kannski miklu frekar hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir um margt prýðilega ræðu og drengilega. Sú síðasta var á margan hátt með öðrum brag. Stundum finnst manni undarlegt að rígfullorðnir þingmenn skuli tala með eins strákslegum brag og þeir leyfa sér margir hverjir og eins og gert var í síðustu ræðu.

Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að það hefðu kannski þótt fréttir og stórtíðindi ef því hefði verið spáð að varaformaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra stæði hér og flytti frumvarp um að leggja bæri þennan sjóð niður og selja eignir hans. Ég get alveg tekið undir það. Ég hef miklar tilfinningar til þessa sjóðs. Hann hefur verið landbúnaðinum mikilvægur í gegnum áratugi. Sjálfur var ég formaður hans um nokkra hríð og sat í stjórn hans, ég sat í stjórn hins nýja lánasjóðs landbúnaðarins þegar hann var stofnaður og ákveðið var að þessi fjárfestingarsjóður landbúnaðarins rynni ekki inn í banka eins og hinir sjóðir atvinnuveganna gerðu. Þeirra tími var þá liðinn. Nú stendur síðasti fjárfestingarlánasjóður atvinnuveganna á þeim tímamótum.

Ég get lýst því yfir að þessi staða er ekki nein óskastaða fyrir mig. Ég hef miklar tilfinningar til sjóðsins og er auðvitað ekki alls kostar áhyggjulaus við þær breytingar. En mér ber skylda til að varðveita þau verðmæti sem þarna eru og láta þau ekki eyðast upp. Í ríkisstjórninni hef ég hef því sett annað markmið á oddinn við þessar breytingar. Bankastarfsemin hefur breyst með þeim hætti að vextir hafa lækkað og verðgildi jarðanna hefur vaxið. Bændurnir hafa náttúrlega ætíð verið skilvísustu menn. Ég minnist þess að þegar ég sat í bankaráði Búnaðarbankans var oft haft orð á því að bankinn hefði aldrei tapað á viðskiptum við bændur. Ég hygg að það sé í stórum dráttum saga hinna bankanna og staðreyndin er sú, hæstv. forseti, þrátt fyrir ummæli hv. þingmanna, að flestir íslenskra bænda eru tryggir viðskiptavinir einhvers viðskiptabanka eða sparisjóðs um leið og þeir hafa sótt réttindi og fjármagn til Lánasjóðs landbúnaðarins og Stofnlánadeildarinnar gömlu. Allt tal um að hér standi menn eftir án nokkurra viðskipta o.s.frv. er því út í loftið.

Ég vil hins vegar hrinda þeim ummælum, ég tel þau ómakleg og ómerkileg, sem hér komu fram í umræðunni að hér standi ráðherra sem sé hrifinn af því að jarðir fari úr höndum bænda yfir til stóreignamanna. Þetta eru ómerkileg orð sem ekki á að þurfa að segja úr ræðustól enda vita hv. þingmenn betur um þær tilfinningar sem ég hef til sveitanna. Ég fagna ekki öllum þeim breytingum en ég fagna því þó að jarðir hafi hækkað í verði. Sveitin er dýrmætari og vinsælli og margir vilja setjast þar að.

Auðvitað vildi ég sjá sem flestar jarðir undir góðum búskap, með ær og kýr þess vegna. En ég fagna hinum nýju greinum landbúnaðarins sem hafa þróast ört á síðustu árum. Ég geri mér grein fyrir því að þessum jörðum fækkar því miður, búin stækka, tæknin breytist o.s.frv. Þetta er þróun sem ég hef ekki leyft mér að stöðva með neinum hætti enda staðan sú að íslensk bú eru á mælikvarða heimsins eða nálægra landa ekki nein stórbú. Ég vil að þetta komi skýrt fram.

Ég vil að það komi fram að bændur hafa fjallað um málið, ekki bara á búnaðarþingi. Síðan málið kom fram og ákveðið var að skoða leiðir til breyta sjóðnum hefur Landssamband kúabænda haldið ársfund og eins Landssamband sauðfjárbænda haldið ársfund. Þeir fundir ályktuðu í svipaða veru.

Hæstv. forseti. Svo að ég lesi það skýrt sem búnaðarþing ályktaði í málinu, því að ég bað búnaðarþing að fara yfir þetta mál alveg sérstaklega og skoða það. Með leyfi forseta, ályktuðu þeir svo:

„Búnaðarþing 2005 hefur fjallað um málefni Lánasjóðs landbúnaðarins. Starfshópur sem landbúnaðarráðherra skipaði til að fara yfir málefni sjóðsins hefur ekki lokið störfum og eftir er að leggja mat á nokkur atriði sem lúta að því hvernig þörf landbúnaðarins fyrir lánsfé verði best mætt á komandi árum. Það er skoðun þingsins að í ljósi gjörbreyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði verði tæpast forsendur til áframhaldandi innheimtu búnaðargjalds til lánasjóðsins.“

Svona ályktuðu þeir á búnaðarþingi og hafa ályktað í nokkur ár, með því að búnaðargjaldið yrði fellt niður.

Þeir segja síðan:

„Verði það niðurstaða starfshópsins að við þessar aðstæður sé ekki mögulegt að halda áfram rekstri lánasjóðsins, leggur þingið þunga áherslu á eftirfarandi:

1. Stærstur hluti þeirra lána sem bændur hafa tekið hjá sjóðnum er með breytanlegum vöxtum. Tryggja þarf hagsmuni og réttarstöðu skuldara lánasjóðsins ef rekstri hans verður ekki haldið áfram.

2. Verðmætum lánasjóðsins verði ráðstafað til að styrkja lífeyrisréttindi bænda.“

Svo mörg voru þau orð. Hér er lagt til að andvirði þessa sjóðs, ef hann selst og fæst fyrir hann gott verð, renni til lífeyrissjóðsins. Þannig er farið að þessari ályktun.

Hvað fyrra áhersluatriðið varðar, að tryggja þurfi hagsmuni og réttarstöðu skuldara, þá var í umræðum hjá báðum hv. þingmönnum nánast látið liggja að þeim ómerkilega málflutningi að það sé verið að selja jarðir bændanna. Bændurnir eiga jarðir sínar og ég hygg að allir virði það og sem betur fer eru ekki allar jarðir stórskuldugar þannig að bændur ráða jörðum sínum. Ég vil segja um þetta að 1. veðréttur sjóðsins hefur ætíð verið umdeildur og hefur sú gagnrýni ekki síst komið frá bændum sem hafa viljað gefa lánasjóðnum meiri sveigjanleika í útlánum, m.a. með því að gefa eftir 1. veðrétt.

Í sjálfu sér er ekkert að óttast fyrir skilvísa menn, eins og bændur eru upp til hópa, en ég veit að íslenskir bændur eru skilvísir og standa ávallt við skuldbindingar sínar. Ég óttast þetta því ekki, enda munu bændur áfram fara með ráðstöfunarrétt yfir eignum sínum. Ég vona að menn reyni ekki að halda því fram í umræðunni að þessi breyting verði til þess að jarðirnar verði teknar af bændum. Það er náttúrlega bara útúrsnúningur og allt annað mundi liggja fyrir ef af framkvæmdinni verður.

Ég hef fyrir mitt leyti viljað sjá bændur hafa sem ríkastan ráðstöfunarrétt á eignum sínum. Þeir hafa kvartað yfir 1. veðrétti, þeir vinna úti í frá, eiga að fá lífeyrissjóðslán og fá þau ekki o.s.frv. Það hafa verið árekstrar við bankana þeirra og árekstrar við Íbúðalánasjóð og heilmikil átök. En ég sagði í upphafi að eitt það vandmeðfarnasta, sem vaka yrði yfir, væri að bændur eru í bankaviðskiptum. Ég sagði að það yrði að huga að réttindum starfsfólksins í söluferli sjóðsins og ekki síður að réttindum viðskiptavinanna, þannig að ég er meðvitaður um alla þessa þætti. Ég vil að það komi fram.

Síðan reynir hv. þingmaður jafnan að gera lítið úr því ef einhver er fenginn til að skoða verkefni, t.d. þetta fyrirtæki, Ráðgjöf og efnahagsspár ehf., sem ég hygg að séu bara hinir mætustu menn úti í bæ, vel menntaðir á sínu sviði og þekktir sem góðir ráðgjafar og heiðarlegir menn. Nöfn þessara manna, fyrst að hv. þingmaður spyr eftir þeim, eru Sverrir Sverrisson, sem mun hafa doktorsgráðu í hagfræði, og Ingvi Harðarson, svo því sé hér haldið til haga og þeirri spurningu svarað.

Hv. þingmenn fjallaði um óuppgreiðanleg lán. Hv. þm. Jón Bjarnason fór að tala um Spöl, eins og oft áður. Það liggur fyrir að Spölur hefur verið fjármagnaður þannig að hann hefur haft uppgreiðsluheimild á lánum sínum. Það er ljóst að þær skuldir eða þau skuldabréf sem lánasjóðurinn á úti í bæ hjá einstaklingum eru bréf í eigu fyrirtækja og einstaklinga úti í bæ sem sjóðurinn ræður ekki yfir í dag og hefur verið samið um. Það er því erfitt og sennilega engin leið að fara þá leið sem hv. þingmaður stakk upp á, að kalla þau inn og fjármagna sjóðinn upp á nýtt. Ég hygg að sjóðurinn hafi á árunum, þegar verðbólga var aðeins stígandi, tekið einhver lán sem voru aðeins óhagstæðari. Svo hafa vextir lækkað nú seinni árin.

Varðandi samfélagslegar skyldur, sem hv. þingmaður ræddi um, þá tel ég félagshyggju og samfélagslegar skyldur mikilvægar, ekkert síður en aðrir hv. þingmenn. Ég hef barist fyrir þeim í minni pólitík og í raun einnig meðan ég var formaður Stofnlánadeildarinnar og stjórnarmaður í Stofnlánadeildinni. Þá leit ég á þær skyldur sem mjög mikilvægar, ekki síst úr af því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á, að ein kynslóð var í þeim efnum oft að styðja aðra til uppbyggingar. Ég hafði mjög gildar skoðanir gagnvart þessu og ríkulegar og taldi þetta gott á þeim tíma. Nú stend ég hins vegar frammi fyrir því að greinarnar hafa þróast með öðrum hætti. Þeir bændur sem ekkert eru að byggja upp hjá sér, sauðfjárbændur eða bændur í öðrum greinum sem eru búnir að fjárfesta og þess vegna búnir að borga upp skuldir sínar segja í dag: Við viljum ekki borga þetta gjald til að byggja þessi risafjós eða framkvæmdir þeirra stóru. Við viljum frekar fá þennan pening í okkar vasa, segja þeir. Það getur vel verið að þetta sé breytt félagshyggja en það getur líka vel verið að það standist ekki tímans tönn að hafa slíkt kerfi í gangi öllu lengur, ég tala nú ekki um ef það er ekki sátt um það hjá atvinnugreininni eins og fram hefur komið.

Ég geri mér auðvitað vonir um að það fáist gott verð fyrir Lánasjóð landbúnaðarins því að ég er sannfærður um að hann býr yfir heilmiklum verðmætum. Í honum er ,,good will“ til viðskipta. Hann á eigið fé upp á 3,5 milljarða kr. Í honum er mikil þekking á sviði þar sem er mikil gróska í dag, þ.e. fjárfestingum í sveitum. Það kann vel að vera að hann verði rekinn áfram af þeim, hvort sem það verður banki, fjárfestingarsjóður eða hver það verður sem kaupir hann. Það getur vel verið að hann verði rekinn áfram sem jarðadeild sem sérhæfi sig áfram á þessu sviði.

Mér er efst í huga við þessar breytingar að ég geri mér grein fyrir því að aðrir eru tilbúnir að fjármagna framkvæmdir sveitanna, sparisjóðir og bankar landsmanna. Þeir eru tilbúnir til þess og hafa lýst þeim viðhorfum sínum. Þeir hafa, er mér óhætt að segja, allar peningastofnanirnar, stóru bankarnir þrír, viðskiptabankarnir, auk sparisjóðanna, haft samband og gert skýra kröfu um að fá að fylgjast með, geta verið aðilar að þessu ferli, geta tekið við sjóðnum og eignast hann og borgað fyrir hann fé. Ég hef heitið þeim því að jafnræðisregla muni ráða þar, að þetta verði opið og opinbert mál og skýrt jafnræði á milli aðila í þeim efnum.

Stærsta von mín við þessar breytingar er sú að bændurnir fari ekki illa út úr þeim heldur fremur vel. Það getur vel verið að þeir fari mjög vel út úr því þegar annar tekur við þessum sjóði og skuldbreytir (Forseti hringir.) lánum þeirra o.s.frv. En hitt er stærsta málið, hæstv. forseti, að styrkja Lífeyrissjóð bænda, sem er verst setti sjóðurinn. Í dag vantar í hann 2,6 milljarða kr. til að hann nái að standa við skuldbindingar sínar í dag.