Lánasjóður landbúnaðarins

Þriðjudaginn 19. apríl 2005, kl. 21:45:49 (7628)


131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[21:45]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að bændurnir geri sér nú almennt grein fyrir því að sjóðurinn er formlega í eigu ríkisins. Þeir virða það við þessa ríkisstjórn og þessa skoðun að menn vilja nota fé sjóðsins til þess að styrkja stöðu lífeyrissjóðsins, þeirra sem reka sjóðinn. Ég er því ekkert að hætta samstarfi við bændurna. Þeir hafa ályktað. Þeir hafa ályktað með skýrum hætti og ég las það hér yfir að þeir komast nánast að þeirri niðurstöðu að hann verði ekki rekinn áfram með þessum hætti og leggja til að þessu verði varið til lífeyrissjóðsins.

Í þessari undirbúningsnefnd sat og situr formaður Bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson, og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, Sigurgeir Þorgeirsson. Ég mun halda áfram og samstarfi við Bændasamtökin og forustumenn landbúnaðarins er ekkert lokið. Ég ræddi þetta á aðalfundi sauðfjárbænda. Ég ræddi þetta á aðalfundi kúabænda og bað menn um viðhorf þannig að ég held áfram því samstarfi.

Ég vil líka taka það fram, hæstv. forseti, að ég ætla hér ekki að skjóta mér á bak við einhverja nefnd eða ráðgjafa í þessu máli. Það er sem sé mín pólitíska niðurstaða eftir að búið er að fara yfir alla kosti þessa máls mjög rækilega að þetta sé leiðin sem verði að fara við þessar aðstæður. Ég tel að hún sé hyggileg og betri en að láta eigið fé sjóðsins étast upp þegar vilji er til að styrkja lífeyrissjóðinn og að sjóðurinn reki sig ekki með þessum hætti. Starfsemi bankanna í landinu er orðin allt önnur og þeir eru tilbúnir að fjármagna framkvæmdir sveitanna. Vonandi munu þeir gera það vel.

Ég hef auðvitað kannað margar aðrar leiðir. Ég hef kannað þetta með lífeyrissjóðinn sem hér kom nú fram í utandagskrárumræðu við hv. þingmann. Ég fór yfir það mál og hef farið yfir það í mínu ráðuneyti. Það kemur í ljós að lög standa í veginum fyrir þeirri leið að sameina og reka sjóðinn inn í lífeyrissjóðinn. Það gekk því ekkert upp. Þetta er því hin pólitíska niðurstaða sem ég tek fulla ábyrgð á og skýt mér ekki á bak við neinn í þeim efnum og hef stuðning ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) með mér í því og stjórnarflokkanna hér á þinginu.