Græðarar

Þriðjudaginn 26. apríl 2005, kl. 15:10:57 (7769)


131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Græðarar.

246. mál
[15:10]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. formanni heilbrigðis- og trygginganefndar fyrir góða framsögu og skýringar á breytingartillögum frá heilbrigðis- og trygginganefnd. Eins og fram kom í máli formanns var ég fjarverandi við afgreiðslu málsins og vil því láta þá skoðun mína koma fram að ég er mjög sátt við frumvarp til laga um græðara. Ég tel að það hafi verið vandaverk að finna þá leið sem rík sátt væri um meðal hinna ólíku hópa sem munu í náinni framtíð geta kallað sig græðara. Þetta er mjög litrík flóra mismunandi starfsstétta sem hefur fjölgað ört á undanförnum árum og sem almenningur er mjög duglegur við að nýta sér til heilsubótar og lækninga. Því er ljóst að með þeirri öflugu starfsemi utan heilbrigðiskerfisins sem sjúklingar margir hverjir nota í dag sem eðlilegan hluta af meðferð og jafnvel erfiðri meðferð, eins og meðferð við krabbameini, þá þarf að koma á ákveðnum samskiptareglum og ramma utan um þessa starfsemi.

Ég held að með þessu frumvarpi um græðara, sem vonandi verður að lögum, ríki sátt og þetta sé prýðileg aðferð til að koma til móts við þarfir þessara ólíku starfsstétta og ekki síður sjúklinga og að með frumvarpinu sé reynt að gæta öryggis sjúklinganna og standa vörð um faglega þjónustu.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi nefna, hæstv. forseti. Vil þá fyrst nefna að það er til í dæminu að einstaka heilbrigðisstofnanir nota það sem við höfum fram til þessa kallað óhefðbundnar meðferðir, eins og t.d. nálastungur þar sem þær eru notaðar í lækningaskyni, jafnt eða þannig að þær jafngilda öðrum aðferðum og má þar t.d. nefna deyfingar. Ef læknir velur frekar nálastunguaðferð til deyfinga frekar en hefðbundna aðferð sem hefur tíðkast fram til þessa, deyfingar með lyfjum, þá fyndist mér það mjög óeðlilegt ef sjúklingur þyrfti að greiða fyrir nálastunguaðferðina en ekki hina hefðbundnu aðferð. Ég tel að það eigi að skoðast mjög alvarlega, að það sé í raun og veru val starfsmannanna hvora aðferðina þeir noti og þá í samráði við sjúklingana, til hvaða meðferðar sé gripið, þ.e. að þetta sé val. Þá muni það ekki kosta sjúklinginn meira ef t.d. nálastunguaðferðin er notuð frekar en hefðbundnar deyfingaraðferðir, ef ég nota þetta eina ákveðna dæmi.

Ef þær aðferðir sem læknar taka upp og velja, aðferðir sem við erum hérna að flokka undir starfsemi græðara, eru útfærðar af starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar með viðurkennda menntun og inni á heilbrigðisstofnunum á það að vera val en ekki aukakostnaður. Ef sjúklingur er með sérþarfir eða sérkröfur eða óskar eftir þjónustu sem er umfram það sem stofnunin veitir getur aftur á móti verið fyllilega eðlilegt að hann greiði þá fyrir sérstaklega. En ég vil að þetta komi hér fram og óska eftir því að þarna verði fyllsta réttlætis og jafnræðis gætt meðal sjúklinganna.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa byrjunina á 7. gr. Takmarkanir á heilsutengdri þjónustu græðara er fyrirsögnin á henni: .

„Meðferð vegna alvarlegra sjúkdóma skal einungis veitt af löggiltum heilbrigðisstarfsmönnum. Þetta gildir þó ekki ef sjúklingur óskar eftir þjónustu græðara eftir samráð við lækni. Græðari skal í slíkum tilvikum fullvissa sig um að samráð hafi átt sér stað.“

Það er þetta með samráðið. Ég tel að það sé erfitt að túlka alveg hreint út í hörgul hvað samráð er, hvort það sé eingöngu það að sjúklingur hafi látið lækni vita af því að hann ætli í meðferð hjá græðara eða hvort sjúklingur túlki samráð eingöngu þannig að læknir ráðleggi ákveðna meðferð. Því er það sérstaklega tekið fram í nefndarálitinu að ábyrgðin liggi hjá sjúklingnum, að hans sé valið og að í raun sé nægilegt fyrir sjúklinginn að tilkynna lækni um fyrirhugaða meðferð hjá græðara og það sé það samráð sem krafist sé. Þetta samráð er ekki, eins og margir telja, fyrir atbeina læknis eða að læknir vísi á græðara. Það er ekki alveg ljóst hvort þetta er í raun tilkynningarskylda sjúklingsins til læknisins, að láta hann vita í hvers konar meðferð hann er hjá græðurum.

Ég held að fyrirvarinn hvað varðar öryggi sjúklinganna sé alveg nægilega skýr, að ef um alvarlega sjúkdóma er að ræða megi græðari ekki ráðleggja fólki að hætta lyfjameðferð eða annarri meðferð sem það hefur hafið hjá löggiltu heilbrigðisstarfsfólki. Eins er það að ef græðarar verða varir við sjúkdóma eða einhverja kvilla sem þeir ráða ekki við ber þeim að vísa sjúklingi til heilbrigðisstarfsmanna. Ég held að þetta sé mjög skýrt og í rauninni einfalt í frumvarpinu og í þeim breytingum sem gerðar hafa verið af hv. heilbrigðisnefnd. Eins skýrir nefndarálitið enn frekar hvað löggjafinn á við með þessu frumvarpi.

Verði frumvarpið að lögum nú á vorþingi, sem ég reikna fastlega með, tel ég að það þurfi tvö til þrjú ár til að reyna sig og sanna áður en í ljós kemur hvort við höfum ekki fundið þarna réttan farveg fyrir þessa þjónustu. Ég reikna í raun og veru ekki með að miklar athugasemdir komi fyrsta kastið við það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til og ég vona að skráningarkerfið verði farsælt og að fundin verði leið til að auglýsa skráða græðara sem bjóða þjónustu sína þannig að almenningur og sjúklingar viti fyrir fram hverjir eru skráðir í Bandalag íslenskra græðara og hverjir ekki.