Græðarar

Þriðjudaginn 26. apríl 2005, kl. 15:24:15 (7771)


131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Græðarar.

246. mál
[15:24]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það var þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi óhefðbundnar lækningar í ræðu sinni sem ég tók við mér vegna þess að þeir sem hafa setið lengi í heilbrigðisnefnd vita að þetta frumvarp er komið fram vegna vinnu sem fór í gang í heilbrigðisráðuneytinu í kjölfarið á þingsályktunartillögu sem margir úr heilbrigðisnefndinni stóðu að fyrir að ég held tveimur árum.

Sú þingsályktunartillaga fjallaði um svokallaðar óhefðbundnar lækningar og framan af held ég að það hafi verið vinnuheitið, samheitið yfir þá þjónustu sem þetta frumvarp nær til, en síðan varð almenn samstaða um það í undirbúningsnefndinni sem skilaði skýrslu og vann drögin að frumvarpinu að óhefðbundnar lækningar væru ekki réttnefni. Til að mynda eru nálastungurnar, sem hefur verið komið inn á hérna í ræðum um þetta mál, mjög hefðbundnar lækningar annars staðar í heiminu. Ég nefni bara Kína sem dæmi.

Niðurstaðan úr þessu öllu saman varð því að þetta skyldi heita „heilsutengd þjónusta“ en ekki óhefðbundnar lækningar og það er það sem frumvarpið tekur til.

Ég ítreka það aftur, af því að við erum að tala um hvað er hefðbundið og hvað ekki, að þeir sem þetta frumvarp tekur til, græðararnir, verða ekki ný heilbrigðisstétt. Græðarar er samheiti yfir þá sem veita svokallaða heilsutengda þjónustu. Hugsunin með frumvarpinu og ákvæðunum um skráningarkerfið var að greina á milli þeirra sem margir hverjir eru með margra ára háskólanám að baki í sínu fagi og svo hinna sem einhverjir mundu kalla skottulækna eða jafnvel fólks sem er með nokkurra klukkustunda eða nokkurra daga námskeið sem grundvöll fyrir þeirri þjónustu sem það veitir. Þetta er megininntakið í frumvarpinu og mér fannst rétt að hafa orð á þessu með þetta heiti, óhefðbundnar lækningar.