Græðarar

Þriðjudaginn 26. apríl 2005, kl. 15:27:15 (7773)


131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Græðarar.

246. mál
[15:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli framsögumanns skrifa ég undir nefndarálitið án fyrirvara og er málinu mjög fylgjandi. Ég kom aðallega hérna upp til að minna á það að hér er að ljúka vinnu sem farið var í eftir samþykkt Alþingis á þingsályktunartillögu vorið 2002. Þá hafði þáverandi hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir flutt þessa þingsályktunartillögu a.m.k. í tvígang, jafnvel oftar, og ég var meðflutningsmaður hennar á því þingmáli. Ég fagna því að svona vel hafi tekist til.

Það kom reyndar fram í andsvari rétt áðan að þingsályktunin fjallaði um stöðu óhefðbundinna lækninga og gekk öll vinnan undir því heiti þar til menn komust að þeirri niðurstöðu að kalla þetta frumvarp til laga um græðara. Ég tel það vera mjög góða niðurstöðu og að þar hafi menn fundið gott orð yfir þennan hóp.

Í þessu nefndaráliti er auðvitað farið yfir alla þætti málsins og vinnuna í heilbrigðis- og trygginganefnd. Þar er ítrekað hvert markmiðið með þessu frumvarpi er, það er til að stuðla að öryggi þeirra sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara. Það er verið að setja þeirri vinnu og þeirri starfsemi ákveðinn ramma og koma á frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara sem Bandalag íslenskra græðara muni síðan annast.

Ég vil ítreka að þarna er ekki verið að gera þann fjölbreytta hóp sem fellur undir græðara að nýrri heilbrigðisstétt, eins og komið hefur fram í umræðunni og getið er hér í nefndarálitinu, heldur er verið að setja ramma um starfsemi þeirra.

Varðandi umræðuna um óhefðbundnar og hefðbundnar lækningar tókum við hana aðeins í nefndinni og ég held að við séum allflest sammála um að þarna séu náttúrlega nokkuð óljós mörk. Eru nálastungurnar dæmigert mál því að þær eru hefðbundnar lækningar í Austurlöndum en hafa fallið undir óhefðbundnar lækningar hér. Það er aldrei að vita nema þetta verði orðnar hefðbundnar lækningar einhvern tíma þannig að skilin eru mjög óljós.

Ég fagna þessu frumvarpi og því að það sé komið hér til afgreiðslu og muni verða að lögum á næstu dögum. Ég minni á að þetta frumvarp er komið fram í framhaldi af þessari þingsályktun og einnig það að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ákvað fyrir nokkrum árum að ráðast í stefnumörkun á þessu sviði og leggja þar nokkrar meginlínur. Hún var með hvatningu til aðildarríkja sinna um að móta eigin stefnu. Þarna er okkar stefna komin fram í þessu frumvarpi, sem er vel.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra en þakka fyrir alla þá vinnu sem hér hefur verið lögð af mörkum og lýkur sem sagt með þessu nefndaráliti.