Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Þriðjudaginn 26. apríl 2005, kl. 23:46:29 (7819)


131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[23:46]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Ég ætla ekki að fara í löngu máli um forsögu þessa máls en í örstuttu máli tengist þetta fyrst og fremst veiðum á rjúpum. Í kjölfar umdeilds veiðibanns sem hæstv. þáverandi umhverfisráðherra setti á kom núverandi umhverfisráðherra síðasta haust á nefnd milli helstu hagsmunaaðila og aðila sem að málinu koma. Þeirri nefnd var falið að koma með reglur í tengslum við veiðistjórn og þá var ekki einungis vísað til veiða á rjúpu heldur líka annarra fuglategunda. Markmiðið með þeim reglum sem nefndin fjallaði um og var samþykkt úr nefnd eftir 1. umr. var að hér yrðu eins og áður sagði, virðulegi forseti, fleiri úrræði fyrir umhverfisráðherra við að beita veiðistjórn þar sem markmiðið er að sjálfsögðu sjálfbær þróun ef þannig má að orði komast.

En hvað sem því líður komu ágætistillögur frá hv. þm. Halldóri Blöndal á milli umræðna sem ákveðið var að taka inn í nefndina og nefndin fór yfir og fékk á sinn fund Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Davíð Egilson og Trausta Baldursson frá Umhverfisstofnun og Sigmar B. Hauksson frá Skotveiðifélagi Íslands.

Í fyrrgreindum breytingartillögum er í fyrsta lagi lagt til að veiðitími á öndum verði styttur, í öðru lagi verði heimilt að skjóta skúma nærri æðarvarpi eins og kjóa og í þriðja lagi að veiðitími á rjúpum verði styttur.

Hvað varðar styttingu á veiðitíma anda taldi fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands að breytingin væri óþörf, ráðherra hefði í núgildandi lögum heimild til að stytta veiðitímann og því þyrfti ekki lagabreytingar til. Einnig benti hann á að allar umræddar andategundir sem heimilt er að veiða væru farfuglar nema stokkönd og toppönd að hluta og aðeins lítill hluti þessara stofna hefði hér vetursetu. Ef ástæða þætti til að takmarka veiðar á þessum tegundum frekar mætti vernda þær svæðisbundið samkvæmt heimildum í núgildandi lögum, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna og 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Fulltrúar Umhverfisstofnunar töldu einnig að breytingin væri óþörf og bentu á að ástand stofna væri breytilegt milli ára og því væri nauðsynlegt að framkvæmdarvaldið hefði svigrúm til að meta veiðitímabilið enda yrði tryggt að ákvörðunin byggðist á faglegu mati á ástandi stofnsins á hverjum tíma.

Varðandi skúminn lagðist Náttúrufræðistofnun alfarið gegn því að heimilt yrði að skjóta skúm nærri æðarvarpi eins og kjóa þar sem um 35% af heimsstofni skúms og 93% af varpstofninum á Norðurlöndum verpur hér á landi. Með lögum nr. 63/1954 hafi skúmur verið friðaður en þó hafi verið heimilt samkvæmt þeim lögum að veiða hann á tímabilinu 15. ágúst til 19. maí ár hvert og samkvæmt lögum nr. 33/1966 á tímabilinu frá 1. september til 31. mars ár hvert. Það skipti þó litlu máli þar sem skúmur sé lítið á landinu á þeim tíma. Frá gildistöku laganna frá 1994 hafi skúmur í raun verið alfriðaður þar sem heimild til að aflétta friðuninni hafi ekki verið beitt frá þeim tíma. Telur stofnunin engin rök til að breyta þeirri stefnu. Í þessu sambandi mætti einnig nefna að Íslendingar hefðu alþjóðlegum skuldbindingum að gegna. Þá var bent á 3. mgr. 7. gr. laganna sem kveður á um heimild ráðherra til að veita tímabundið leyfi til að veiða dýr sem talin eru valda tjóni og að meðan sú undanþáguheimild hefði jafnlítið verið nýtt til veiða á skúm og raun ber vitni væri ástæðulaust að rýmka veiðiheimildirnar með lagabreytingu. Fulltrúar Umhverfisstofnunar tjáðu nefndinni að stofnmat Náttúrufræðistofnunar væri hinn vísindalegi grunnur sem Umhverfisstofnun byggði tillögur sínar á um veiðar á einstökum tegundum.

Hvað varðar styttingu á veiðitíma á rjúpu taldi fulltrúi Náttúrufræðistofnunar að breytingin væri óþörf. Fulltrúar Umhverfisstofnunar töldu að heimildirnar í framlögðu frumvarpi nægðu.

Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin ekki ástæðu til að mæla með samþykkt breytingartillögunnar en, virðulegi forseti, telur nauðsynlegt að kannað verði hvort ástæða sé til að friða ákveðin svæði. Eins og áður hefur komið fram er heimild innan laga fyrir ráðherra að gera slíkt.

Í 2. umr. gætti nokkurs misskilnings varðandi a-lið 2. tölul. í breytingartillögum nefndarinnar, þ.e. hvort sölubann væri því aðeins leyfilegt að einhver önnur takmörkun væri líka notuð. Það er skilningur nefndarinnar að sölubannsheimildin sé sjálfstæð heimild og því megi beita henni hvort sem er einni eða með öðrum takmörkunum. Til að koma í veg fyrir fyrrgreindan misskilning leggur nefndin til að orðin „innan leyfilegs veiðitímabils“ verði felld brott og samhliða því verði gerð smávægileg orðalagsbreyting þannig að í stað orðsins „stofnsins“ komi „viðkomandi stofns“. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Í stað orðanna „enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands stofnsins að takmarka veiðar innan leyfilegs veiðitímabils“ í 1. efnismgr. 3. gr. komi: enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands viðkomandi stofns að takmarka veiðar.

Gunnar Birgisson og Kolbrún Halldórsdóttir skrifuðu undir álitið með fyrirvara. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta skrifa Guðlaugur Þór Þórðarson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Birgisson, með fyrirvara, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara, Kristinn H. Gunnarsson, Mörður Árnason og Rannveig Guðmundsdóttir.