131. löggjafarþing — 118. fundur,  27. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[00:04]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara þessu mörgum orðum. Í fyrsta lagi er frumvarpið sem hér liggur fyrir almennt og á ekki bara við rjúpur. Ég benti hv. þingmanni á það, að mig minnir við 2. umr. málsins, að þetta frumvarp varðar aðrar tegundir einnig. Það er ekki bundið við rjúpuna eins og menn geta fullvissað sig um sem lesa frumvarpið.

Í annan stað þykir mér út af fyrir sig áhugavert að hv. þingmaður skuli telja nauðsynlegra að friða hrafninn en endur. Það er kannski vegna þess að hv. þingmanni þyki hrafninn greindari en aðrir fuglar og leggi mikið upp úr greind fugla og manna. Þá er kannski rétt að minna hann á að sú var skoðun Ólafs Friðrikssonar að grænlenski hrafninn væri greindari en sá íslenski.

Í þriðja lagi vil ég aðeins segja að við hér sem erum kjörnir til Alþingis eigum að fara eftir samvisku okkar en ekki eftir reseptum utan úr bæ.