131. löggjafarþing — 118. fundur,  27. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[00:09]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er að sumu leyti heimilislegt að vera komin svo langt inn í nóttina, fram yfir miðnætti, og hlusta á 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, halda ræður um friðun anda. Ég deili ýmsum hugrenningum hv. þingmanns í þessum efnum. Ég er einn þeirra þingmanna og kannski eini þingmaðurinn sem lýsti stuðningi við hæstv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttur á sínum tíma, þegar hún ákvað að koma á þriggja ára veiðibanni á rjúpu. Ég er enn þeirrar skoðunar að við hefðum að ósekju mátt halda út það þriggja ára tímabil þótt ég felli mig fullkomlega við þá málamiðlun sem frumvarpið sem hér um ræðir felur í sér. Ég tel hana vera skynsamlega. Ég tel hana unna af ígrundun af hv. umhverfisnefnd, sem skoðaði málið til hlítar, ekki einungis eftir 1. umr. heldur líka eftir 2. umr.

Ég var því miður fjarverandi við 2. umr. málsins og raunar við afgreiðslu þess frá nefndinni fyrir 2. umr. Ég stóð því ekki að nefndaráliti nefndarinnar á þskj. 906 en á framhaldsnefndarálitinu sem hér er til umræðu, og eins og hv. þingmaður, formaður umhverfisnefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson gat um, þá rita ég undir það framhaldsnefndarálit með fyrirvara.

Fyrirvari minn lýtur að tvennu má segja. Ég nefndi í upphafi máls míns að ég er þeirrar skoðunar að vel hefði mátt halda út þriggja ára alfriðunartímabil á rjúpu. Við vitum að við talningu á rjúpunni vorið 2004 kom það fram að stofninn hefði tvöfaldast á milli áranna 2003 og 2004. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands bendir allt til þess að álíka stórt stökk verði í stofninum í vor, sem er auðvitað fagnaðarefni og afar athyglisvert, sérstaklega þegar haft er í huga að veiðarnar eru eini þátturinn í stofnstærð rjúpunnar sem við getum haft einhver áhrif á. Hinar náttúrulegu sveiflur getum við ekki haft áhrif á en veiðarnar getum við haft áhrif á. Ég tel að ef við hefðum haft biðlund í eitt ár til þá hefðum við séð enn betur áhrif friðunarinnar. Ég tel að það hefði verið gott að öðlast þá þekkingu. Þriggja ára veiðibannið hefði haft aukna þýðingu til að meta þau áhrif sem veiðibann hefur með einhverri vissu. En málamiðlunin sem hér er lögð er að mínu mati engu að síður ásættanleg. Ég set mig alls ekki upp á móti henni.

Varðandi hitt atriðið sem ég hef fyrirvara við, þá er það sölubannið sem ég hef vikið að oftar en einu sinni í þingræðum þegar þessi mál hafa verið til umfjöllunar. Ég hef ákveðnar efasemdir um að sölubann eitt og sér haldi. Ég ber nokkurn ótta í brjósti varðandi möguleika fólks á að stofna til einhvers konar svartamarkaðssölu á íslenskri rjúpu, sem eðli málsins samkvæmt er ekki merkt upprunalandi þegar hún er komin á disk neytenda, t.d. á veitingahúsi. Ég hefði verið höll undir þá leið sem Náttúrufræðistofnun Íslands lagði upphaflega til, að jafnframt sölubanni yrði bannaður innflutningur á erlendri bráð, erlendum fugli, sem væri sambærilegur við íslensku rjúpuna. Þar mun fyrst og fremst átt við grænlenskar rjúpur. Þær gætu mögulega ratað inn á markaðinn. Þær eru mjög svipaðar íslensku rjúpunni og ekkert sem kæmi í veg fyrir það í sjálfu sér að menn seldu íslensku rjúpuna sem grænlenska, nema þá að innflutningsbann væri í gildi.

Um þetta segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem send var umhverfisnefnd og dagsett er 24. febrúar síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Náttúrufræðistofnun hefur áður lýst þeirri skoðun að sölubann þurfi að ná til innfluttra dýra sömu tegundar enda sé, svo dæmi sé nefnt, erfiðleikum háð að þekkja í sundur íslenskar og grænlenskar rjúpur og möguleiki að smygla íslenskum rjúpum inn á markað á þeim forsendum. Náttúrufræðistofnun getur þó fallist á til reynslu það fyrirkomulag sem lýst er í frumvarpinu. Tryggja þarf að reglum um upprunavottorð og pökkun á innfluttri villibráð sé framfylgt. Í því sambandi hvetur Náttúrufræðistofnun til þess að reglugerð um sölu, innflutning og útflutning villtra dýra sem kveðið er á um í 7. gr. núgildandi laga verði sett sem fyrst og áður en rjúpnaveiði hefst á nýjan leik.“

Í þessu sambandi vil ég, hæstv. forseti, hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að setja þessa reglugerð sem allra fyrst og sömuleiðis undirstrika það sem álit Náttúrufræðistofnunar að fyrirkomulagið sem við erum að innleiða hér sé einungis til reynslu. Til þess að við getum metið þá reynslu sem við fáum af þessu fyrirkomulagi þarf auðvitað virkt eftirlit. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að tryggja að það verði viðhaft og stundað svo það verði alveg ljóst á hvern hátt þetta fyrirkomulag nýtist okkur og hvort það gagnast okkur til fulls, eins og við auðvitað vonum. Virkt eftirlit og öflug reglugerð mundi hjálpa í þeim efnum. Þetta eru í meginatriðum þeir fyrirvarar sem ég hef við málið, þeir eru í sjálfu sér ekki alvarlegir en ég vildi þó að þeir kæmu hér fram.

Ég vil svo einungis hnykkja á sjónarmiði mínu varðandi breytingartillöguna sem umhverfisnefnd gerir við 3. gr. frumvarpsins, en hún varðar 17. gr. laganna. Þar er gert ráð fyrir að orðalagið verði eins og segir í breytingartillögu nefndarinnar: „enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands viðkomandi stofns að takmarka veiðar“. Ég vil bara taka það fram til þess að það sé sagt hér að það hlýtur að felast í orðanna hljóðan að það sé Náttúrufræðistofnun Íslands sem kemur til með að meta stofnstærðina eða ástand stofnsins. Það hlýtur að vera Náttúrufræðistofnun Íslands sem er sá aðili sem, eðli máls samkvæmt, sér um það mat. Ég lít því svo á og ég tel að það sé skilningur umhverfisnefndar að það sé í verkahring Náttúrufræðistofnunar Íslands að meta stofnstærðina og ástand stofnsins.

Hvað varðar friðun ákveðinna svæða og málefni það sem hv. þm. Halldór Blöndal tók upp hér, hann nefndi sérstaklega ákveðin lindarsvæði sem þörf væri á að friða fyrir þeim veiðimönnum sem láta sér detta í hug að skjóta endur, rauðhöfða eða grænhöfða, þá vil ég taka undir með hv. þingmanni og reyndar ítreka það sem ég sagði við 1. umr. að ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. umhverfisráðherra haldi rjúpnanefndinni við efnið hvað þetta varðar. Eins og hún sagði í upphafi ræðu sinni þegar hún fylgdi málinu úr hlaði og reyndar í ræðu sinni áðan líka, er meiningin að tillögur um griðlönd og friðuð svæði að þessu leyti eigi eftir að líta dagsins ljós. Ég tel mjög mikilvægt að rjúpnanefndinni verði falið þetta verkefni áfram og því fyrr sem slíkar tillögur líta dagsins ljós, því betra. Við verðum að viðurkenna að hér er um viðkvæma stofna að ræða sem við berum ábyrgð á. Við þekkjum hnignun lífkerfisins, ekki bara hér á landi heldur út um allan heim, vegna ágangs mannsins. Hluti af þeim ágangi er auðvitað veiðiálag.

Hæstv. forseti. Eitt atriði hefur ekki verið nefnt í þessari umræðu, ég var ekki viðstödd 2. umr. en ég veit a.m.k. að nú við 3. umr. hafa ekki verið nefnd þau sjónarmið sem Bændasamtök Íslands hafa viljað koma að í umræðu um málið. Mér finnst eðlilegt að sanngirni sé gætt í þeim efnum. Umhverfisnefnd bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands og raunar líka ályktun frá búnaðarþingi sem leiðir í ljós grundvallarmun á sjónarmiðum bænda annars vegar og sportveiðimanna hins vegar. Ég held að full ástæða sé til fyrir okkur að hugleiða nánar sjónarmið bænda í þessum efnum. Ég er ekki að segja að ég geri þau að mínum, alls ekki, en hins vegar tel ég að þeir hafi ákveðinn hefðarrétt í þessum efnum sem sé kannski ekki alveg sjálfgefið að afnema.

Í umsögnum sínum fjalla bændur um það að ásókn sportveiðimanna í veiðar á fuglum hafi farið vaxandi á seinni árum. Þeir viðurkenna að það geti gefið bændum og öðrum landeigendum aukna möguleika til tekjuöflunar af hlunnindum ef vel tekst til með skipulag og eðlilega nýtingu, en þeir telja jafnframt að með aukinni ásókn í fuglaveiðar hafi komið fram að ýmsir þeir sem sportveiðar stunda sætti sig illa við umráðarétt bænda yfir þessum hlunnindum. Bændur segja að þetta hafi stundum leitt af sér árekstra og jafnvel kærur. Jafnframt kemur fram í greinargerð sem nefndinni barst frá búnaðarþingi að þær hugmyndir sem koma fram í frumvarpinu sem hér er fjallað um séu mörgum bændum lítt þóknanlegar. Menn telja jafnvel að þær séu sumar hverjar óframkvæmanlegar, eins og t.d. sölubannið á rjúpu sem bændur leggjast mjög gegn. Þeir taka fram að bændur eða landeigendur kjósi að veiða sjálfir á lendum sínum og selja afurðirnar og það hafi þeir gert árum og áratugum saman og þeim finnist því fráleitt að banna sölu á rjúpu og telja það kalli einungis á svokallaðan svartan markað.

Bændasamtökin telja jafnframt nauðsynlegt að forðast að tekið verði upp skipulag og reglur sem bjóði upp á sífelldar deilur og árekstra og því sé nauðsynlegt að til komi skipulegar og samræmdar aðgerðir. Síðan tala bændur um hugmyndir sem þeir hafi um að stofna einhvers konar samtök sem gætu líkst samtökum sem þeir hafa nú þegar og eru við lýði um lax- og silungsveiði. Þeir hefðu í huga að slík samtök gætu haft það hlutverk að vinna hugmyndum þeirra brautargengi hjá stjórnvöldum og telja útilokað að þetta mál komist í farsælan farveg nema bændur sjálfir komi að og móti framtíðarfyrirkomulag og séu þokkalega sáttir við þann farveg sem málið verður sett í.

Ég nefni þetta hér af sanngirnisástæðum. Ég tel eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra, sem er einmitt viðstödd umræðuna hér og ég vil þakka það — það er virðingarvert á þessum síðustu og verstu tímum þar sem gagnrýnt hefur verið hér í dag að við söknum oftar en ekki ráðherra í 2. eða 3. umr. mála — ég tel eðlilegt að ráðherra fái þessi sjónarmið Bændasamtakanna með sér í nesti og geti skoðað þau í sínum ranni. Hún veit auðvitað að þarna eru ólík sjónarmið sem tekist er á um, en eins og ég sagði þá held ég að bændur og aðrir landeigendur séu kannski ekki alveg búnir að segja sitt síðasta í þessum málum.

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu á því að vitna í bréf frá ástríðufullum veiðimanni sem skrifaði umhverfisnefnd. Gísli Páll Pálsson heitir hann og fagnar því að þetta mál skuli nú vera til lykta leitt og hann komi til með að geta skotið nokkrar rjúpur í jólamatinn fyrir næstu jól. Hann fjallar hér um athyglisverðan hlut sem varðar styttingu eða stýringu veiðitíma og þá sérstaklega þá stýringu sem heimilar umhverfisráðherra að beina veiðum inn á ákveðinn hluta dags. Gísli Páll Pálsson er að fjalla um kvöldveiðar á gæs. Hann segir í bréfi sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég stundaði slíkar veiðar fyrir allmörgum árum og oft á tíðum sá maður lítið hvað var verið að skjóta á og í mörgum tilfellum missti maður særða fugla út í myrkrið. Slíkt veiðibann er að mínu mati afar mikilvægt og mundi veiðiálag minnka og gæsirnar fengju frið á náttstað. Það er sennilega auðveldara fyrir gæsina að finna nýtt beitarland að degi til heldur en að finna sífellt nýjan og nýjan náttstað þó að ég hafi ekki neinar vísindalegar rannsóknir til þess að styðja mál mitt.“

Ég vitna í þetta bréf, hæstv. forseti, sem er til marks um það hversu margir hafa sýnt málinu áhuga og hversu margir hafa komið að máli við nefndina og skrifað nefndinni hugrenningar sínar og langanir og þrár í þessum efnum.

Eins og hv. þm. Halldór Blöndal gat um í ræðu sinni er þetta mál líka tilfinningatengt. Ég er engin undantekning þar frá. Hv. þm. Halldór Blöndal hafði áhyggjur af skúminum í æðarvarpinu en mig langar að minna á að það eru fleiri en skúmurinn sem næla sér í gæsarunga uppi á heiðum. Ég minni á það að það eru a.m.k. 600 gæsahreiður sem koma til með að fara undir vatn í væntanlegu Hálslóni, ef það verður einhvern tímann að veruleika. Það er því ekki bara skúmurinn sem er frekur til fjörsins í þessum efnum, það er ekki síður maðurinn, hvort heldur hann fer um með byssur eða stórvirkjanir á hálendinu.