131. löggjafarþing — 118. fundur,  27. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[00:26]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu og góðu umræðu sem búin er að vera hér í nótt um þetta mál. Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu í lokin. Ég held, ef maður fer yfir málið í heild sinni og ég segi það bara frá eigin brjósti, að það sé afskaplega mikilvægt að hér verði sjálfbærar veiðar á þeim fuglum og dýrum sem þola slíkt. Ég heyri það og það er ekkert nýtt, við finnum það í nefndinni og bara með því að vera til, að það séu ýmsar tilfinningar sem bærast hjá fólki þegar kemur að slíkum hlutum og það er eðlilegt og tilfinningarök eru líka rök. Það er hins vegar mjög mikilvægt þegar við nálgumst þetta mál, löggjafinn og hæstv. ráðherra, og ég efast ekki um að það verði, að menn reyni að gera það með eins vísindalegum hætti og mögulegt er. Sem betur fer erum við með kerfi sem ég veit ekki hvort er einstakt í heiminum en a.m.k. hefur það gengið afskaplega vel, og það er veiðikortakerfið sem hefur gengið framar björtustu vonum. Það er mjög gott og auðvelt að nálgast upplýsingar um t.d. veiðar á fuglum fyrir almenning og sjá hvernig það hefur þróast. Það er eitthvað sem menn þurfa að skoða og hafa til hliðsjónar í þessu efni.

Ég lít á slíkar veiðar sem afskaplega mikil gæði og þær eru í mínum huga hluti af íslenskri menningu, við getum kallað það veiðimenningu eða hvað það er. Við erum enn þá veiðiþjóð og við lifum af veiðum, það er ekkert flóknara en það. Þrátt fyrir ýmislegt gott sem er að gerast í þjóðfélaginu, útrás á öllum sviðum, þá er grunnurinn samt sem áður enn þá sá á Íslandi að við lifum af veiðum þó svo að sífellt færri vinni við slíkt.

Það eru mikil gæði að geta notið náttúrunnar á þennan hátt og að vera í þeim góðu tengslum við náttúruna sem veiðimenn eru, það þekki ég sjálfur. Það liggur hins vegar alveg fyrir að gera verður mjög miklar kröfur til þeirra aðila sem nýta slík gæði, umgengni þeirra verður að vera góð og virðing þeirra fyrir bráðinni og umhverfinu verður að vera til staðar. Eðli málsins samkvæmt eigum við að sjálfsögðu, ef við sjáum fram á að einhver hætta sé á ferðum með ákveðna stofna, að grípa til aðgerða, verndunaraðgerða. Ég held að allir eigi að vera sammála um það. Það skiptir hins vegar miklu máli allra hluta vegna að umræðan sé málefnaleg og byggð á traustum rökum. Þannig held ég að náist best sátt og bestur árangur, því það er engum til hagsbóta, hvorki veiðimönnum né þjóðinni, að við göngum of nærri ákveðnum stofnum.

Þó að mjög margt sé í þessum lögum sem má skoða og þó að margir fletir séu á þeim lít ég svo til að þessi sátt sem hefur náðst meðal aðila — ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa haft frumkvæði að því að koma þessari nefnd af stað, ég held að það hafi verið afskaplega skynsamlegt skref. Þær reglur sem við sitjum uppi með núna eru miklu betra tæki til að takast á við veiðistjórnun en við höfum haft áður.

Ég heyrði hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að hún hafði ákveðnar áhyggjur af sölubanni. Það eru viðhorf sem við þekkjum en samt sem áður er þetta ekki eitthvað sem við Íslendingar erum að finna upp, þetta er almenna reglan í öðrum löndum. Það er almenn regla að það sé sölubann á veiðibráð. Áhyggjur eru kannski eðlilegar þegar við erum að byrja — ef út í það verður farið yfirleitt, engar ákvarðanir hafa verið teknar um slíkt, það er ráðherra sem ákveður. Ef út í það verður farið vona ég að það muni ganga ágætlega.

Ég þakka fyrir þessar góðu umræður og þakka nefndinni fyrir afskaplega gott samstarf. Ég vonast til þess að það starf sem hefur verið unnið hér og sú löggjöf sem vonandi verður samþykkt á næstu dögum verði liður í því að hér verði hægt að stunda áfram sjálfbærar veiðar í góðri sátt við þjóðina. Það er auðvitað algjört grundvallaratriði.