131. löggjafarþing — 118. fundur,  27. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[00:32]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir síðustu orð hv. ræðumanns, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og segja að það er auðvitað gott ef við náum sátt um það hvernig við viljum umgangast íslenska náttúru, samt með þeim hætti að við séum ekki að leggja af veiðar og eðlilega náttúrunýtingu. Ég tek undir þau sjónarmið og fagna því að menn nái saman um að reyna að standa að veiðum á rjúpu og öðrum fugli með eðlilegum hætti. Ég vonast vissulega til að þetta verði okkur öllum til farsældar í framtíðinni og megi samt tryggja að nýtingin haldi áfram með eðlilegum hætti.

Það er kannski hægt að ramma þessa umræðu inn með vísukorni sem ég hripaði niður áðan. Ég læt það vera lokaorð mín við þessa umræðu, eitthvað á þessa leið:

Við friðum vetrarlendurnar,

þar sem að sofa endurnar,

við heftum dálítið fjendurna

sem til veiða nota hendurnar.