Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:25:50 (8167)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:25]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að hlusta á hv. þm. Jón Bjarnason. Já, hv. þingmaður hefur þann eiginleika að reyna að hræða fólk, segja að allt sé að farast og komið á heimsenda. Hann brást harkalega við frammíkalli hjá mér er ég benti honum á að skoða það í fjölskyldu sinni og ræða við hinn snjalla hagfræðing, son sinn Ásgeir Jónsson, og fara yfir peninga- og bankamálin.

Hv. þingmaður talar hér um fyrsta veðrétt og hina ógnvænlegu stöðu. (JBjarn: Seldur fyrsti veðréttur.) Það er ekki verið að selja einn einasta veðrétt. Bændur eiga jarðir sínar og skuldir. Allir peningamenn segja: Styrkur bændanna liggur í fyrsta veðréttinum, til að semja um sín mál. Þeir eiga skuldir sínar og jarðir og margir þeirra skulda lítið. Þeir eiga alla möguleika í málinu og fyrsti veðrétturinn er styrkur þeirra.

Síðan liggur fyrir að það er ekki friður um búnaðargjaldið. Fátækir sauðfjárbændur, sem oft eru nefndir hér, sem ekkert eru að framkvæma, vilja ekki borga gjald til að byggja upp stóru fjós o.s.frv. Þannig eru 140 millj. kr. af tekjum sjóðsins farnar og að fara og sjóðurinn mundi bíða verulegt afhroð við þær aðstæður.