Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:27:14 (8168)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:27]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra getur talað svona sjóð dauðan og það hefur hæstv. ráðherra gert síðustu vikurnar, sem er mjög alvarlegt mál. Ef hæstv. ráðherra, af sínum sannfæringarkrafti, hefði fylgt málinu eftir á hinn veginn, staðið með sjóðnum og hagsmunum hans, þá væri staðan kannski önnur. Hæstv. ráðherra hefur býsna mikið vald með því í hvaða veruna hann talar.

Ég hef gagnrýnt það að það væri nánast algjörlega talað þannig að sjóðurinn, hlutverk hans og verkefni, ættu sér ekki framtíð. Ég mótmæli því og tel að það hafi ekki verið kannað. Ég átel þann málflutning að engar aðrar leiðir séu til, fyrir utan það að skilja sjóðinn, verkefni hans og viðskiptavini eftir, án leiðsagnar um hvernig með verði farið í lagafrumvarpinu, sem ég tel (Forseti hringir.) mikið kæruleysi.