Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:29:36 (8170)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:29]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að mínu viti er sjóðurinn enn á lífi og ráðherrann á ekki að skrifa um hann minningargreinar strax. Ég vil líka minna á að því miður slapp hæstv. ráðherra við að vera nemandi minn. En ég kenndi tveimur bræðrum hans á Hvanneyri á sínum tíma og ég held að þeir hafi haft gott af. Ég hefði helst þurft að geta fengið hæstv. ráðherra sem nemanda. Þá hefði hann (Gripið fram í.) kannski verið enn betri.

Málefni Lífeyrissjóðs bænda eru allt annað mál. Það liggur heldur ekkert fyrir hvaða fjármagn kemur fyrir þennan sjóð þegar búið verður að selja hann. Verðmæti hans felast í hlutverki hans, í viðskiptum hans við bændur. Ég er ekkert viss um að söluverð hans verði svo mikið ef búið er að brjóta hann upp. (Landbrh.: Talaðu það ekki niður.) Ég er bara raunsær. Alla vega er það skrýtið hjá ráðherra, annars vegar að tala um að sjóðnum sé að blæða út og hins vegar ætli hann að fá fyrir hann stórfé (Forseti hringir.) til að setja í Lífeyrissjóð bænda. Lífeyrissjóður bænda er allt annað mál.