Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:31:00 (8171)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:31]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason flutti hávísindalega ræðu með sínum hætti og niðurstaðan varð náttúrlega eins og alltaf: Það á ekki að gera hlutina svona heldur einhvern veginn öðruvísi.

Það kom mjög skýrt fram í landbúnaðarnefnd hver staða sjóðsins er og menn töldu að það væri mikilvægt að bregðast við. Ég heyri að hv. þingmaður slær á öll þau rök sem þar komu fram. Hins vegar er óvefengjanlegt hver staða sjóðsins er.

Hv. þingmaður talaði fram og til baka um eitt og annað, en ég spyr, og væri mjög gott að fá beint svar við því: Hvað vill hv. þingmaður nákvæmlega gera í málinu annað en bara skoða málið, skipa nefnd og horfa eitthvað fram í tímann án þess að vita hvert hann ætlar? Hvað vilja Vinstri grænir gera varðandi sjóðinn í þeirri stöðu sem hann er?