Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:34:07 (8174)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:34]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef tekið undir að skoða þurfi stöðu sjóðsins og kanna framtíð hans og rekstrarmöguleika. Ég hef einmitt bent á að það hafi ekki verið gert til hlítar.

Ég held, alveg sama hvernig hv. þm. Magnús Stefánsson vill snúa sér út úr málinu, að þetta snúist fyrst og síðast um einkavæðingarfíkn Framsóknarflokksins, því miður, (Gripið fram í: Það er rangt.) og að selja þessar eignir. Annars hefði m.a. verið farið rækilegar í að kanna hver framtíðarstaða og framtíðarréttur viðskiptavina sjóðsins yrði. (Gripið fram í: Þetta er óábyrgur málflutningur.)

Ég held því miður, frú forseti, að þetta sé það sem fólkið upplifi í landinu, þessa einkavæðingarfíkn. Sala Símans er á næsta leiti þó að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé afar andvígur sölu Símans, sem skilar miklu fjármagni í ríkissjóð. Það er varla til það sem ekki á að einkavæða og selja, því miður.