Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:50:47 (8177)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:50]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er alveg fullkunnugt um að ríkið hefur komið að málefnum loðdýrabænda, m.a. þau ár sem ég hef setið á þingi. En mér er líka kunnugt um að bankastofnanir hafa boðið loðdýrabændum betur en lánasjóðurinn í vissum tilvikum. En svo aftur á móti þegar til átti að taka ákvað Lánasjóður landbúnaðarins að gera enn þá betur en viðkomandi banki sem varð til þess að einstaklingarnir sem ráku viðkomandi bú sátu uppi með mjög óhagstætt lán í bankakerfinu og enduðu með því að þurfa að selja frá sér allt sem hægt var til þess að verða ekki gjaldþrota og hætta búskap.

Þetta dæmi sýnir bara hversu fallvölt tilveran er í hinu almenna bankakerfi. Ekki er nú samúðinni fyrir að fara til þeirra sem þar eru að versla ef svo viðrar, sem aftur á móti hefur tíðkast hjá opinberum stofnunum eins og Lánasjóði landbúnaðarins því að þar eru málin skoðuð með viðskiptavinunum til enda og þróunin tekin inn í dæmið.

Það er alkunna, held ég, að loðdýrabændur hafa átt við mjög langvarandi erfiðleika að etja frá upphafi þeirrar búgreinar á Íslandi en ég vona nú að það sjái fyrir endann á þeim erfiðleikum. Lánasjóður landbúnaðarins skipaði virkilega mikið hlutverk í því að endurreisa loðdýrarækt á Íslandi.