Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:52:50 (8178)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:52]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er tilveran fallvölt og það er eins í atvinnurekstri bænda og öðrum rekstri að ekki er alltaf góðæri. Saga loðdýraræktarinnar hér á landi er sorgarsaga. Reyndar eru ekki mörg loðdýrabú rekin í landinu í dag en þau eru held ég flestöll sem eru rekin í dag sem betur fer rekin af miklum myndarskap og það var mjög gaman að koma einmitt í heimsókn, eins og við í hv. landbúnaðarnefnd gerðum, í Skagafjörðinn fyrir tveimur árum.

En bara til gamans því hér var verið að ræða um hross áðan og þá sagði hv. þingmaður að merarnar beri. En ég held að þær kasti. Þær gera það alla vega á Suðurlandi. Þær kasta á Suðurlandi.