Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 17:22:11 (8180)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[17:22]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segir að hornsteinn uppbyggingar í landbúnaði hafi verið Lánasjóður landbúnaðarins. Hins vegar hefur staðan breyst og stór hluti lántakanda hefur greitt upp lán sín. Við búum nú við mjög breytt rekstrarumhverfi og vandi sjóðsins er sá að hann er orðinn of lítill. Lánastofnanir í samkeppni við lánasjóðinn bjóða hagstæðari vexti. Einnig er vert að hafa í huga þá staðreynd að bændur vilja ekki greiða lengur búnaðargjald til Lánasjóðs landbúnaðarins til að greiða niður vexti hver fyrir annan. Þannig er staðan.

Hv. þingmaður gerði að mínu mati lítið úr Byggðstofnun. Byggðastofnun hefur getað lánað og haft svigrúm til að lána þótt hún hafi ekki fjármuni núna til styrkja eða hlutafjárkaupa. Hins vegar ættum við fremur að efla Byggðastofnun en að gera lítið úr henni.

Það kom fram í máli lánasjóðsmanna að að óbreyttu þurfi lánasjóðurinn að hækka vexti sína, a.m.k. um 2%, til að viðhalda eigin fé sjóðsins. Sjóðurinn er orðinn of lítill sem rekstrarleg eining. Við fórum vandlega ofan í það hvort hægt væri að reka hann með hagkvæmari hætti. Það var alls ekki talið unnt. Þar vinna sjö manns. Hann er rekinn með eins mikilli hagkvæmni og hægt er. Það er ekki hægt að reka hann með minni tilkostnaði. Hann er bara orðinn of lítill og of dýrt að reka hann til þess að það sé hægt áfram. Þess vegna var þessi ákvörðun tekin.