Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 17:24:17 (8181)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[17:24]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili ekki um að takast þurfi á við vanda þann sem blasir við hjá Lánasjóði landbúnaðarins. Það er ekki verið að deila um það. Mér er ljóst að hann er sem slíkur mjög lítil eining og að of hátt hlutfall tekna hans fer í rekstur. Það er eiginlega dæmt til að gerast ef haldið er úti lítilli einingu af þessu tagi. Það skapar honum líka augljósan vanda ef búnaðarsjóðsgjöldin falla niður því þau skipta þar þrátt fyrir allt enn þá miklu máli þótt þau hafi lækkað mikið.

Ég hef reyndar enga sérstaka sannfæringu fyrir því að með breytingum á því fyrirkomulagi hefði ekki áfram getað ríkt samstaða um það innan greinarinnar að þau gjöld væru til staðar. Hins vegar er alveg ljóst að menn horfa til þess að greiðslubyrðin, skoðuð á móti útlánunum, færist til milli greina innan landbúnaðarins. Það er t.d. ljóst að sauðfjárræktin, sem lítið hefur fjárfest undanfarin ár, er nettógreiðandi fremur en þiggjandi á þessu tímabili. En það kann að breytast.

Að mínu mati hefði vel mátt hugsa sér að setja einhverjar skorður við því hve mikil tilfærsla af því tagi geti orðið. Ég ætla a.m.k. ekki að trúa öðru fyrr en mér hefur þá verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti, að félagsþroski bænda hafi minnkað þannig að þeir geti ekki sem slíkir upp til hópa staðið saman um fyrirkomulag af þessu tagi, ef menn lagfærðu það í ljósi aðstæðna.

Síðan vil ég mótmæla því að ég hafi gert lítið úr Byggðastofnun. Það var ekki í mínum huga. (Gripið fram í.) Hún stendur hins vegar illa, það var það sem ég var að segja. Á ekki Byggðastofnun sjálf við umtalsverðan vanda að stríða sem menn þyrftu þá að takast á við fyrst? Það væri a.m.k. æskilegast að gera það áður en upp kemur vandi af þessu tagi, sem menn viðurkenna að geti skapast ef þeir leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins. Á að skilja þá bændur sem veikasta hafa stöðuna til að fá hagstæð lán annars staðar eftir á köldum klaka? Þá er þeim (Forseti hringir.) vanda bara sisvona vísað á Byggðastofnun.