Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 17:26:31 (8182)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[17:26]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram að útlánatöp hafa í reynd ekki verið mikil hjá Lánasjóði landbúnaðarins. Það er ekki þess vegna sem það væri erfitt fyrir Byggðastofnun að taka við þeim bændum sem ekki fá inni hjá lánastofnunum.

Hv. þingmaður velti fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að sameina lánasjóðinn öðrum stofnunum. Verkefnisstjórnin fór ofan í það. (Gripið fram í.) Jú, verkefnisstjórnin fór ofan í það og sagði að fátt benti til þess að slík stofnun gæti boðið bændum betri kjör en þeim bjóðast á almennum lánamarkaði, þótt e.t.v. mætti ná fram einhverjum rekstrarlegum sparnaði við slíka sameiningu. Það var mat verkefnisstjórnarinnar að samkeppnisstaða slíkrar stofnunar yrði ekki betri en staða lánasjóðsins er nú. Í þessu samhengi er einkum hætta á að betri lántakar beini viðskiptum sínum í auknum mæli til bankanna, eins og gerst hefur undanfarið.

Ég held að þetta sé bara viðurkennd staðreynd. Það blasir við að sjóðurinn er kominn í þrot. Sumarið verður notað til að koma honum í sölu og það er ekki betra að draga þessi mál til lengdar.