Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 17:28:04 (8183)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[17:28]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að það er ekki gott að draga mál af þessu tagi. En það má á móti gagnrýna það að menn fari af stað með svona mál, gera það opinbert og sýna það, fyrr en það er betur undirbúið og menn komnir með það á hreint hvað þeir ætla að gera og geti gert það hratt. Það er auðvitað ekki gott að starfsemi af þessu tagi sé í kastljósi af því tagi sem nú er varpað á lánasjóðinn og verður, kannski fram undir árslok. Það má snúa þessu algjörlega við og segja: Hefðu menn ekki átt að vinna heimavinnuna sína betur og vera klárari á því hvað þeir ætluðu að gera og gera það þá fljótt þegar málið væri gert opinbert með þessum hætti?

Síðan eru innbyggðar í málflutninginn mótsetningar sem enginn hefur getað svarað fyrir, og hæstv. landbúnaðarráðherra gufaður upp eins og stundum áður. Það er ekki auðvelt að láta það ganga upp að segja annars vegar: Þessi sjóður er að komast í þrot og mikinn vanda. En segja hins vegar: Við ætlum að selja hann og fá fullt verð fyrir hann og styrkja Lífeyrissjóð bænda um háar fjárhæðir með söluandvirðinu. (Gripið fram í.) Nei, það er bara eitthvað sem ekki gengur alveg upp í því. Annaðhvort er þessi vandi raunverulegur, áþreifanlegur og útreiknanlegur, hættan á misgengi milli tekinna lána sjóðsins sem ekki eru með uppgreiðslurétti annars vegar og útlánunum hins vegar, eða ekki. Ef vandinn er þarna þá leyfi ég mér að efast um að það gangi um miskunnsamir samverjar úti í fjármálaheiminum íslenska sem séu tilbúnir að baka hann að sér án endurgjalds. Ég hef ekki hitt slíka góðverkamenn. Ég held að þeir í bönkunum séu bara ekki miskunnsamir samverjar, ég hef ekki orðið var við það. Það er eitthvað pínulítið sem gengur ekki alveg upp þarna.