Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 14:23:08 (8335)

131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:23]

Jóhann Ársælsson (Sf) (frh.):

Hæstv. forseti. Umræður hafa staðið nokkuð lengi um þetta mál. Ég hóf ræðu mína hér fyrir hádegi og talaði ekki langt mál þá en í hádegishléi fékk ég upplýsingar sem eru á þann veg að ég á frekar von á að þetta mál gangi eitthvað hraðar fram en það hefur gert, ég á því von á að þessi umræða standi ekki í marga daga í viðbót.

Mig langar til að fara yfir kannski tvö atriði í viðbót. Það kann vel að vera að hv. þingmönnum finnist að þeir hafi heyrt eitthvað af því áður sem ég ætla að fara yfir. Það sem stendur í umsögn Samkeppnisstofnunar og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í að litlum hluta, ræður miklu um afstöðu mína til þess máls sem hér er á dagskrá.

(Forseti (ÞBack): Forseti óskar eftir betra hljóði í þingsalnum svo hægt sé að nema orð hv. þingmanns sem er í ræðustóli.)

Hæstv. forseti. Í umsögn Samkeppnisstofnunar stendur:

„Tilgangur þessara tillagna er sagður vera að efla eftirlit með samkeppnishömlum. Byggjast tillögur að mestu á niðurstöðum nefndar viðskiptaráðherra um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Af skýrslu þeirrar nefndar og ummælum í athugasemdum í ofangreindum frumvörpum má ráða að eftirfarandi meginforsendur liggi til grundvallar þessum hugmyndum að skipulagsbreytingum í samkeppnismálum:

Núverandi skipulag og stjórnsýsla sé of flókin og tvískipting samkeppnisyfirvalda í Samkeppnisstofnun og -ráð sé sérstök og skapi ójafnvægi milli málsaðila.

Eftirlit með samkeppnisreglum sé lítill hluti af störfum Samkeppnisstofnunar.

Samkeppnisyfirvöld hafi ekki getað einbeitt sér nægilega að eftirliti með samkeppnisreglum vegna anna við önnur verkefni.

Samkeppnisyfirvöld geti ekki við óbreyttar aðstæður sinnt nauðsynlegum verkefnum.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að frumvarpið leggur til grundvallarbreytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum. Að mati Samkeppnisstofnunar er það bagalegt að framangreindar forsendur fyrir þessum breytingum byggjast í aðalatriðum á misskilningi eða röngum upplýsingum um núverandi stjórnsýslu í málaflokknum. Telur Samkeppnisstofnun það gagnrýnisvert að nefnd viðskiptaráðherra hafi kosið að leggja fram þessar tillögur án þess að leita upplýsinga hjá stofnuninni eða samkeppnisráði, auglýsinganefnd eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Hlýtur almennt að teljast æskilegt að leitað sé upplýsinga um staðreyndir og reynslu þeirra stjórnvalda sem falin er framkvæmd á tilteknum lögum áður en gerðar eru tillögur um að stjórnsýslufyrirkomulagi á því sviði sé gerbylt. Þegar Samkeppnisstofnun fékk í hendur skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og upphafleg drög að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga í september 2004 vakti stofnunin athygli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á misskilningi og ónákvæmni sem fram kom í skýrslunni og drögunum. Viðbrögð ráðuneytisins fólust í því að gera breytingar á orðalagi í athugasemdum með drögum að frumvarpinu. Samkeppnisstofnun var jafnframt upplýst um það að engar breytingar yrðu gerðar á tillögunum um nýtt stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum.

Þar sem helstu forsendur fyrir framangreindum tillögum fá ekki staðist varar Samkeppnisstofnun við því að þær verði lögfestar.“

Hæstv. forseti. Mér finnst að það sem kemur fram í því sem ég las upp sé það alvarlegt að annaðhvort hljóti menn að verða að hafna þessu og þar með öllu áliti Samkeppnisstofnunar á þessu málefni eða horfast í augu við það að hér séu menn á röngum brautum. Ég hallast að því að þeir sem hafa talað og skrifað þessi orð á blöð hafi manna mest þekkingu á þeim málum sem hér er um að ræða og það sé afar alvarlegt þegar í ljós kemur að stjórnvöld hafa ekki hlustað á það fólk sem þarna hefur talað. Ég er þess vegna á þeirri skoðun að þetta mál hefði þurft að fá nýja skoðun í heild og tel reyndar að Alþingi væri sæmast að vísa því til föðurhúsanna.

Mig langar í lok ræðu minnar, því að það fer nú að styttast í því sem ég ætla hér að segja, að nefna til gamans frétt úr Morgunblaðinu frá 12. febrúar 2002, þar sem stendur í fyrirsögn: „Forsætisráðherra ósammála SUS“ — þ.e. Sambandi ungra sjálfstæðismanna — „um Samkeppnisstofnun“. Ég ætla ekki að lesa fréttina í heild en, með leyfi forseta, vitna í það sem stóð í henni. Þar er millifyrirsögnin: Mikilvægt að stofnunin hafist að þannig að hafið sé yfir tortryggni.

Þar segir:

„Davíð lagði á það áherslu að Samkeppnisstofnun væri ekki hafin yfir gagnrýni. „Það er afar þýðingarmikið að hún í sínu mikla og mikilvæga verkefni hafist jafnan að þannig að það sé hafið yfir tortryggni. Það tel ég vera rétt og skynsamlegt,“ sagði hann.

Forsætisráðherra bætti því við að hann hefði verið fylgjandi því að völd Samkeppnisstofnunar yrðu aukin og því hefði verið fylgt eftir á þingi. „Ég hef sagt opinberlega að ég telji að ef aðili er kominn með markaðsráðandi stöðu, til að mynda 60% stöðu á matvörumarkaði í einhverju landi, og það komi fram að slík yfirburðaaðstaða hafi verið misnotuð, þá hljóti ríkisstjórn og þing að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að tryggja að hægt sé að breyta slíkri stöðu.“

Hann vísaði enn fremur til þeirra radda sem talið hafa slík inngrip af hálfu stjórnvalda brjóta í bága við stjórnarskrána og sagðist hafa efasemdir um þá túlkun.

„Slíkar heimildir eru víða til í lögum í kapítalískum þjóðfélögum sem svo eru kölluð sem búa við stjórnarskrá sem mjög er svipuð íslensku stjórnarskránni. Þess vegna tel ég að það væri undarlegt ef slíkt mundi brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána,“ sagði forsætisráðherra enn fremur og tók fram að slík lög myndu ekki beinast að einstöku fyrirtæki, heldur yrðu þau að vera með almennum hætti sett, en þó svo að hægt væri að brúka þau í tilfellum sem þessum.“

Við þekkjum hvert framhaldið var. Eftir bolludaginn komu til umræðu í Alþingi lagasetningarhugmyndir sem reyndar náðu svo ekki fram að ganga en virtust óumdeilanlega beinast að einu fyrirtæki fremur en öðrum.

Svo segir hér áfram, með leyfi hæstv. forseta, og kemur þá millifyrirsögn:

„Verður stofnuð önnur Samkeppnisstofnun?

Hann tók þó fram“ — þ.e. Davíð, hæstv. forsætisráðherra á þeim tíma — „að hér væri hann að lýsa sinni persónulegu skoðun, ekki lægi fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar.

„Ég met störf Samkeppnisstofnunar mikils, tel hana mjög mikilvæga stofnun en hún þarf engu að síður að fara að lögum eins og aðrar stofnanir. Sumir segja jafnvel að það ætti að stofna aðra Samkeppnisstofnun til þess að veita hinni fyrri heilbrigða samkeppni,“ sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra.“

Stofna aðra Samkeppnisstofnun. Hér hreyfir fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra þeirri hugmynd að stofna — ekki leggja niður Samkeppnisstofnun heldur stofna aðra til viðbótar svo það verði nú samkeppni á þeim markaði líka. (Gripið fram í: Húmoristi.) Davíð Oddsson, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, er náttúrlega húmoristi. Það er alveg rétt. En við getum nú svona verið nokkurn veginn viss yfirleitt um það hvort hann er að grínast, a.m.k. sýnist mér að það fari ekki á milli mála eftir því hvort hlegið er að hér í salnum þegar hann lætur koma fram einhverja glettni hér. Ég veit ekki hvort hér var grín á ferðinni. Alla vega var Davíð Oddsson ekki á þeim buxunum þegar þetta er ritað að það ætti að leggja Samkeppnisstofnun niður. Ég geri ráð fyrir því að eitthvað í framhaldi málanna hafi orðið til þess að hæstv. forsætisráðherra fékk þá hugmynd ásamt félögum sínum í ríkisstjórninni að best væri nú að leggja þessa stofnun af og mynda nýjar stofnanir til að taka við af henni. Það er það sem við stöndum núna frammi fyrir að verður gert. Ekki er ástæða til að halda að það vanti meiri hluta í Alþingi fyrir því því reynslan hefur sýnt okkur að í öllum málum nema einu kannski hefur tekist að ná fram meiri hluta með þeim málum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ættu að ganga hér fram. Ekki er ástæða til að láta sér detta í hug að ekki sé meiri hluti fyrir því sem hér er á ferðinni.

Þess vegna er svolítið gaman að rifja það bara upp svona í lokin að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hafði þá skoðun að bæta mætti við annarri stofnun og þyrfti ekki að leggja niður þá sem fyrir var. En hæstv. viðskiptaráðherra hefur sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að svona ætti nú að búa frekar í pottinn, þ.e. leggja niður þessa stofnun, ráða fólk að nýjum stofnunum. Það hefur ekki fengist hér fram hvort stjórnandi Samkeppnisstofnunar verði starfsmaður hinnar nýju stofnunar sem tekur við. Ég held að það sé mikilvægt að menn viti hvar hugur manna þar stendur til vegna þess að það gæti nú alla vega eytt þeirri tortryggni sem uppi er ef það kæmi skýrt fram að þetta væri ekki atlaga að einhverjum tilteknum stjórnendum. Mér finnst vont við þetta mál að það skuli vera búinn til valdapíramídi í kringum samkeppnismálin sem byggist á því að þriggja manna pólitískt kjörinn hópur eigi að véla um hvernig eigi að standa að þeim málum og að undir þann hóp verði sá embættismaður settur sem hefði þurft að hljóta mikillar friðhelgi í sínum störfum.

Það er galli á þessu máli að svo skuli í pottinn búið. Ég fæ satt að segja ekki skynsamlega skýringu á því. Þó ég hafi hlustað á það sem sagt hefur verið hér þá hefur mér fundist að það vantaði upp á að á því væri góð og trúverðug skýring sett fram.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði við upphaf ræðu minnar núna ætla ég ekki að halda áfram í löngu máli. Ég geri ráð fyrir því að þingmálum fari að vinda hér fram hraðar heldur en kannski áður einfaldlega vegna þess að við höfum fengið fréttir af því að menn séu að finna leið til þess að skipuleggja sameiginlega þinghaldið og ég ætla ekki að standa í vegi fyrir því að mál gangi hér fram og fái þann tíma sem þau þurfa til umræðu og afgreiðslu.