Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 14:37:33 (8336)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:37]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir að Alþingi og forseti fari með löggjafarvald, að önnur stjórnvöld fari með framkvæmdarvald og dómendur fari með dómsvald.“

Í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“

Fyrir hádegi sagði hv. þingmaður að hann vissi persónulega — og er nokkurn veginn eftir haft — að það hefði átt að dæma tryggingafélögin. Svo segir hann stuttu seinna að þau hefðu sloppið. Hér er sem sagt kveðinn upp dómur. Nú veit ég ekkert um þetta mál. Ég vil taka það fram, frú forseti. Ég hef ekki yfirheyrt tryggingafélögin eða hlustað á vörn þeirra sem þau að sjálfsögðu hafa rétt til að flytja í dómsal. Ég tel að þarna hafi tryggingafélögin verið dæmd úr ræðustól Alþingis. Við þurfum að gæta að stjórnarskránni og þess að hver er saklaus þar til hann er dæmdur og hann á rétt á að verja sig. Hann getur það ekki hér. Ég legg til að hv. þingmaður dragi þessi ummæli til baka.

Varðandi það að lögin séu veikt þá vil ég geta um 72. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Í 17. gr. samkeppnislaga stendur, með leyfi forseta:

„Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn:“ Svo er þar liður c, með leyfi forseta: „aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.“

Það er ekkert meir. Það er ekkert um hvers lags aðstæður sé að ræða, ekki hvers lags ástæðu og menn þurfa ekki að hafa gert neitt af sér. Þetta tel ég ekki að sé lagafyrirmæli um ákveðið mál. Þau þurfa að vera mjög skýr. Þetta ákvæði er því tómt. Auk þess þyrfti að koma fullt verð fyrir, þ.e. það yrði að dæma mönnum bætur. (Forseti hringir.) Þetta er því ekki veiking. Þetta er tómt ákvæði.