Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 14:39:50 (8337)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:39]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vill að ég dragi þau ummæli mín til baka að tryggingafélögin hafi átt samráð. Það dettur mér ekki í hug að gera einfaldlega vegna þess að ég vissi um þetta samráð sjálfur. Þau sluppu að mínu mati. Mér finnst að af því hafi komið fréttir í fjölmiðlum mjög skýrar (Gripið fram í.) einfaldlega vegna þess að tíminn sem samkeppnisyfirvöld tóku í að fara yfir þeirra mál var orðinn allt of langur. Þau hafa hins vegar sektuð fyrir einhverja hluti svona þar fyrir utan þannig að eitthvað hefur nú eins og gengur kannski ekki gengið eins og til var ætlast hvað þau varðar. Ég hef ekki um það sérstök dæmi til að færa fram.

Ég lít ekki þannig á að þó að þingmaður í sölum Alþingis segi skoðun sína á framgangi einhverra fyrirtækja í þessu landi þá eigi að líta á það sem einhverja ákæru og dóm. Ég tel ekki að það sé nein ástæða fyrir mig að taka aftur ummæli um tryggingafélögin einfaldlega vegna þess að það er bara mín sannfæring að þau séu rétt.