Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 14:41:29 (8338)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:41]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú veit ég ekkert um þetta mál eins og ég gat um. Mér finnst mjög alvarlegt þegar í ræðustól á Alþingi er sagt að einhver hafi brotið lög, einhver ákveðinn aðili, einhver ákveðin persóna, ákveðið fyrirtæki, vegna þess að sá aðili á að hafa rétt til þess að verja sig ef það á að dæma hann. Það er grundvallarréttur og hann er tryggður í stjórnarskránni. Sá sem er ákærður og dæmdur með orðum á því að hafa rétt til að verja sig. Alþingi er jú einn af þremur þáttum ríkisvaldsins. Alþingi er löggjafarsamkundan. Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál, mjög alvarlegt.

Svo varðandi hitt atriðið, að það sé verið að veikja lögin með því að taka út c-lið 17. gr. núgildandi laga þá færði ég rök fyrir því að þetta ákvæði sé svo opið. Þar stendur bara um aðstæður sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Það er ekkert t.d. sagt hvort félagið eigi að vera með 90% markaðshlutdeild, hvort það eigi að mynda keðju sem spanni allan markaðinn eins og eru dæmi um o.s.frv., hvort það sé með fjölmiðla sem leggja mat á fyrirtækið sjálft o.s.frv. Þetta er galopið ákvæði. Það er varla hægt að beita því vegna þess að samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar skal eignaupptaka eingöngu framkvæmd — og þarf til þess lagafyrirmæli. Þau þurfa þá að vera skýr. Þau þurfa að segja að ef fyrirtækið nær 90% markaðshlutdeild þá skuli skipta því upp og þá komi bætur fyrir. Þetta ákvæði er því tómt. Það er aldrei hægt að beita því. Menn munu alltaf segja að það vanti lagafyrirmæli í þessu ákveðna tilfelli þar sem er verið að skipta fyrirtækinu upp. Þess vegna hefur þessu ákvæði aldrei verið beitt og því mun ekki verða beitt af því það vantar nákvæm lagafyrirmæli. Fyrir utan það er ég ekki viss um að menn séu tilbúnir til að láta ríkissjóð borga skaðabæturnar.