Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 15:00:53 (8341)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:00]

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til samkeppnislaga. Málið hefur verið rætt nokkuð mikið síðustu vikur, a.m.k. síðustu daga, og þó nokkuð margar athugasemdir hafa komið fram. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að renna yfir þær hér en athugasemdirnar hafa komið úr ýmsum áttum, m.a. frá sjálfu Lögmannafélaginu eins og fram kom fyrr í dag í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar.

Ef maður veltir því vendilega fyrir sér hvað þetta frumvarp þýðir, t.d. fyrir forstjóra Samkeppnisstofnunar, þá virðist því að vissu leyti nánast stillt upp gegn honum og hefur það margoft komið fram.

Fjölmargir sérfræðingar hafa gert athugasemdir við frumvarpið svo og félagasamtökin ASÍ, BSRB. Einnig hefur Samkeppnisstofnun sjálf gert athugasemdir. Með leyfi forseta langar mig að rýna í svar við fyrirspurn minni frá því fyrir ári sem beint var til viðskiptaráðherra um Samkeppnisstofnun.

Spurningin var: Hefur á síðustu tíu árum verið gerð úttekt á starfsemi Samkeppnisstofnunar? Í svarinu segir, með leyfi forseta:

„Embætti ríkisendurskoðanda annast árlega endurskoðun á reikningum Samkeppnisstofnunar en á síðustu tíu árum hefur ekki verið gerð stjórnsýsluúttekt á stofnuninni.“

Áfram er spurt: Hyggst viðskiptaráðherra grípa til ráðstafana til að auka afkastagetu Samkeppnisstofnunar?

Í svarinu segir m.a., með leyfi forseta:

„Á næstunni má gera ráð fyrir að ný verkefni verði færð til Samkeppnisstofnunar og mun viðskiptaráðherra sérstaklega beita sér fyrir því í ríkisstjórn að fjárframlög til þeirra verkefna verði tryggð.“

Frú forseti. Nú, ári seinna, á allt í einu að leggja stofnunina niður. Eitthvað hlýtur að hafa gengið á á þessu eina ári úr því að menn taka svo drastískar ákvarðanir. En það er með þetta frumvarp eins og svo mörg önnur sem meiri hlutinn hefur lagt fram, að því miður eru þau lögð afskaplega seint fram og mörg hver illa unnin. Það er lítið um samráð og þau eru keyrð í gegnum þingið. Í því sambandi, frú forseti, vill sá er hér stendur að endingu gera athugasemdir almennt um störf þingsins síðustu vikur. Það sem ég sagði áðan á við um mörg þeirra mála sem verið hafa til umræðu. Í því sambandi má nefna frumvarp um Ríkisútvarpið sf. sem er það illa unnið, illa ígrundað — margar athugasemdir hafa komið við því — að það yrði okkur í þinginu alls ekki til sóma að keyra það í gegn á þessu þingi.