Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 15:46:15 (8344)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum um samkeppnismál og ef allt væri með felldu væri hér mikill fögnuður og samheldni meðal þingmanna í því hvernig menn ættu að taka á málum. Menn væru sammála ef allt væri með felldu um að það þyrfti að taka á málum. Því miður er ekki svo. Þrátt fyrir að komið hafi upp stór mál á undanförnum árum virðast menn ekki vera sammála um að auka valdheimildir Samkeppnisstofnunar eða að efla þá stofnun. Nei, því miður. Hér kemur stjórnarmeirihlutinn með frumvarp sem annars vegar skerðir valdheimildir stofnunarinnar, leggur hana niður og ráðgerir að setja á fót nýja stofnun, væntanlega með nýjum forstjóra. Stjórnarliðar hafa ítrekað verið spurðir að því hvort til standi að ráða þann mann sem hefur veitt Samkeppnisstofnun forstöðu undanfarið en það hefur verið fátt um svör. Menn hafa reynt að forðast eins og heitan eldinn að svara því hvort hann komi til greina í það starf. Það kemur e.t.v. ekki á óvart vegna þess að hann hefur gengið þokkalega hart fram í nokkrum málum sem virðast vera viðkvæm fyrir stjórnarflokkana.

Ég hefði talið að menn ættu frekar að efla stofnunina og leita leiða og leita leiða til þess að í þjóðfélaginu geti menn sameinast um að taka á brotum í samkeppnismálum. Því er ekki að heilsa. Menn reyna að keyra í gegn mál þar sem setja á yfirfrakka á forstjóra nýrrar stofnunar, þar sem menn eiga ekki að fara eftir venjulegum hæfisreglum heldur verða allt aðrar reglur sem henta stjórnarmeirihlutanum.

Til þess að skilja hvað er í gangi þá verður maður að skoða söguna. Allt frá því að Samkeppnisstofnun fór í að rannsaka ákveðin mál hafa stjórnarherrarnir, bæði hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, ítrekað kvartað undan því hvernig Samkeppnisstofnun hefur borið sig að. Það væri í raun nær að núverandi forstjóra yrði veitt einhver verðlaun, einhver umbun fyrir vel unnin störf. Því er ekki að heilsa heldur eru núverandi starfsmenn stofnunarinnar í uppnámi með störf sín. Þess vegna er rétt að fara yfir það hvernig þessi mál hafa þróast. Allt frá því Samkeppnisstofnun hóf rannsókn olíumálsins hafa menn verið með upphlaup sem hafa tengst Sjálfstæðisflokknum sérstaklega.

Þess er skemmst að minnast að sumarið 2003 fóru fulltrúar Samkeppnisstofnunar á fund ríkislögreglustjóra með gögn þar sem þeir greindu frá því að grun sínum um refsivert athæfi. Ríkislögreglustjóri neitaði að taka við gögnunum. Hann hefur verið í miklu uppáhaldi hjá hæstv. dómsmálaráðherra og virðist stundum sem beintenging sé þar á milli.

Þá má minnast þess að hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson taldi vafasamt að sekta olíufélögin — hann hélt því fram í viðtali — vegna þess að það mundi fara út í verðlagið með hækkunum. Það er mjög undarlegt að formaður eins stærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi skuli mæla því bót að refsa ekki fyrir alvarleg brot þar sem svikin hafa verið af almenningi, ekki ein milljón, tíu eða tuttugu milljónir, heldur jafnvel milljarðar, þúsundir milljóna hafa verið svikin af almenningi. Formaður eins stærsta stjórnmálaflokksins, hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson, gefur í skyn að það eigi ekki að sekta félögin. Þetta er stórfurðulegt og í raun undarlegt í lýðræðisríki að mönnum skuli detta þetta í hug.

Fleiri í þessum ágæta flokki hafa haft þessi mál á hornum sér. Sjálfur hv. þm. Pétur H. Blöndal, þegar ákveðin skýrsla um olíusamráðssvikin sem snerti stjórnarflokkana með beinum hætti, lét hafa eftir sér að mikilvægt væri að finna þann sem hefði lekið skýrslunni. Ekki var það til þess að veita honum verðlaun. Mér þætti það ólíklegt miðað við viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar við því þegar litli Landssímamaðurinn lak upplýsingum um hvernig vinir Sjálfstæðisflokksins hefðu gengið um Landssímann. Þá var talið réttlætanlegt að reka hann með skömm.

Hvernig ætli standi á því að menn vilji fara þessa leið? Það er vegna þess að Shell er beintengt inn í Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur m.a. komið fram hjá prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur bent á það að það eru bein tengsl þar á milli. Einnig eru bein tengsl milli Olíufélagsins og inn í Framsóknarflokkinn, frú forseti.

Þegar Samkeppnisstofnun ætlar síðan að taka á brotum þessara félaga, hvað er næsta verk hjá þessum flokkum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum? Það er að leggja stofnunina niður og helst að losna við forstjórann líka. Til að gulltryggja sig algerlega er settur yfirfrakki á næsta forstjóra Samkeppniseftirlitsins, til þess að gulltryggja að honum detti ekki í hug að fara sömu leið. Þannig er það.

Allt er þetta gert undir því yfirskyni að það eigi að einfalda stjórnsýsluna. Ég hef ekki séð þá einföldun enn þá. Það væri fróðlegt ef hv. þingmenn stjórnarliðsins greindu frá því hvað verður einfaldara. Að vísu á að leggja niður samkeppnisráð. Það hefði jafnvel mátt gera það án þess að að leggja niður Samkeppnisstofnun. Menn ættu að koma hreint fram. Ég skora þess vegna á hæstv. utanríkisráðherra að greina okkur frá því að þetta sé eingöngu til að gulltryggja að fyrirtæki flokksins lendi ekki í álíka vanda á ný.

Eitt er a.m.k. víst, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mikinn áhuga á samkeppni. Það sjáum við gleggst á því er við höfum rætt um Landssímann, söluna á honum. Fyrirtæki á fjarskiptamarkaði benda á að til að tryggja samkeppni sé rétt að undanskilja grunnnetið. En það gengur ekki heldur vilja menn selja grunnnetið. Hvað gera menn með því að selja grunnnetið með Landssímanum? Jú, þeir selja einokunaraðstöðu. Ætla menn að selja í raun eða ætla menn að ráðstafa Landssímanum? Auðvitað vaknar grunur um að þar verði ráðstöfun eins og þegar Búnaðarbankanum var ráðstafað til S-hópsins. Það er nú til skoðunar hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni en þegar sú skýrsla er lesin, einkavæðingarskýrslan, um hvernig Búnaðarbankanum var ráðstafað, er augljóst að eitthvað var bogið við þá ráðstöfun. Þegar hann var seldur voru valdir flokksmenn og vinir Framsóknarflokksins, síðan fengu menn í fyrstu tveggja mánaða greiðslufrest á stórum hluta af því sem átti að ráðstafa til S-hópsins. Síðan átti að greiða afganginn eftir eitt ár. Menn fengu eins árs gjaldfrest til að greiða fyrir Búnaðarbankann.

Sporin hræða. Þessir flokkar hafa því miður ekki mikinn áhuga á samkeppni eða því að fá hæsta verð. Enda kemur á daginn, nú þegar menn íhuga söluna á Landssímanum, að menn vilja ekki einu sinni veita ákveðnum hópi fjárfesta, fulltrúum almennings sem einmitt kalla sig Almenning, aðgang að gögnum um verðmætamat Landssíma Íslands.

Sporin hræða hvað þetta varðar og fleiri mál hafa komið upp. Nefna mætti mál tryggingafélaganna. En í staðinn fyrir að framsóknarmenn veittu meiri fjármuni til Samkeppnisstofnunar þá var það alls ekki gert. Nú starfar svipaður fjöldi hjá Samkeppnisstofnun og fyrir tíu árum, þrátt fyrir að ítrekað hafi komið upp samráðssvikamál.

Ég tel, og er í raun viss um það, að það sé vegna þess að stofnunin var að rannsaka mál sem fóru of nærri hreiðri stjórnarflokkanna. Þess vegna mátti ekki auka fjárframlagið til þeirra. Við sjáum að menn gáfust upp á að rannsaka mál tryggingafélaganna. Það var ekki vegna þess að menn teldu ekki að pottur hefði verið brotinn hjá tryggingafélögunum. Ég tel miklu frekar að önnur mál, svo sem olíumálið, hafi yfirtekið starfskrafta stofnunarinnar og að ekki hafi náðst að sekta, beita stjórnvaldssektum, í þeim málum vegna þess að þau voru orðin of gömul. Það hefur komið fram.

Megingallinn á þessum samkeppnismálum, þegar er farið yfir lagafrumvarpið, er að stjórnarflokkarnir hafa einfaldlega misst trúverðugleikann. Það er erfitt fyrir stjórnarliða að rökstyðja málið og vera með einhvern málflutning í því, sérstaklega hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem fólk í samfélaginu getur tekið mark á. Það er erfitt þegar litið er til umræðunnar um fyrri mál, svo sem olíusamráðsmálið þess er skýrslan lak út. Þá vildu menn finna lekann en ekki endilega auka fjárframlög til stofnunarinnar til þess að keyra málin í gegn. Það er áhyggjuefni að einungis örfáir menn eru að störfum hjá efnahagsbrotadeild við að rannsaka alvarlegustu mál sem upp hafa komið í samfélaginu. En á meðan vinna yfir 100 manns að eftirliti með sjómönnum í landinu, sem eru 3.500.

Við höfum ítrekað orðið vör við svolítið sérstakar áherslur hjá stjórnarflokkunum. Þær eru óskiljanlegar nema í því ljósi að menn sjái og fari yfir hve nátengd olíufélögin eru Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Hið sama á við um tryggingafélögin. Þá sést að menn vilja ekkert vera að rannsaka þetta og vilja í raun leggja niður þá stofnun sem hefur eitthvað átt við þetta. Í öðru lagi vilja þeir gulltryggja það að sú stofnun sem sett verður á fót fari ekkert að fikta í þessum málum svo að menn fái að vera í friði.

Fari maður yfir umsagnir, sem ég gerði af samviskusemi, um þetta frumvarp þá er ekki að sjá að tekið hafi verið mark á t.d. umsögn Neytendasamtakanna. Það er í raun dæmigert að Framsóknarflokkurinn skuli ekkert mark taka á umsögn Neytendasamtakanna. Fyrir skömmu var annað mál á dagskrá, um Landbúnaðarstofnun. Þar átti heldur ekki að taka neitt mark á Neytendasamtökunum.

Hvaðan kemur þetta frumvarp? Ég hef verið að furða mig á því. Mér var bent á ágæta skýrslu en þar er óskalisti, þ.e. í skýrslu frá Samtökum atvinnulífsins. Hún er samin 2002 og má segja að þá, árið 2002, hafi samtökin verið að jafna sig eftir þær rannsóknir sem Samkeppnisstofnun fór í af festu á fyrirtækjum, stórum aðilum innan Samtaka atvinnulífsins. Þeir setja fram óskalista í skýrslu sinni og mætti segja að það frumvarp sem hér er um að ræða sé óskalisti Samtaka atvinnulífsins í skýrslu samtakanna frá því í maí 2002. Þar segir efst á blaði:

,,Samkeppnisráð verði lagt niður og Samkeppnisstofnun taki við hlutverki þess.“ — Í frumvarpinu er það reyndar Samkeppniseftirlitið.

Í öðru lagi segir:

„Valdheimildir Samkeppnisstofnunar verði skýrðar og c-liður 17. gr. laganna verði felldur niður.“ — Þetta er einmitt það sem frumvarpið felur í sér.

Í þriðja lagi segir hér:

„Settar verði skýrar reglur um heimild til húsleitar og um framkvæmd slíkrar leitar.“

Menn hafa sem sagt farið í óskalista Samtaka atvinnulífsins, sem er í sjálfu sér allt í lagi, en taka ekkert mark á skýrslu sem sjálfur hæstv. viðskiptaráðherra lét semja og kom út haust. Þar lögð áhersla á að í samkeppniseftirlitinu fái menn rýmkaðar rannsóknarheimildir. Það er ekki tekið mark á því en menn fara í óskalista frá Samtökum atvinnulífsins.

Mér finnst það í raun tímanna tákn að menn taki ekkert mark á Neytendasamtökunum, geri ekkert með umsagnir þeirra en fari eingöngu að tillögum samtaka þeirra sem hafa kannski ekki farið alveg eftir samkeppnislögunum. Ég hefði einmitt talið nær að efla samkeppnislög og auka traust neytenda á því að atvinnulífið fari að lögum. Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið að ná á ný trúnaði neytenda. Mér þykir leitt að Samtök atvinnulífsins sjái sér ekki hag í að efla Samkeppnisstofnun og taka undir með Neytendasamtökunum vegna þess að það er hagur neytenda og landsmanna allra að framkvæmd þessara laga verði yfir allan grun hafin.

Ég botna í raun ekki í stjórnarliðinu að leggja fram lagafrumvarp með þessum hætti þegar grunsemdir hafa kviknað um að það eigi að — það var í rauninni staðfest í morgun í sjónvarpinu af sjálfum hæstv. viðskiptaráðherra — veikja núverandi samkeppnislög. Hvers vegna reyna menn ekki frekar að vekja traust neytenda, traust þjóðarinnar á því að farið sé að samkeppnislögum? Ég átta mig ekki á því hvaða tilgangi þetta þjónar. Ég furða mig á því að Samtök atvinnulífsins og stjórnarliðar vilji ekki endurreisa það traust sem á að ríkja milli neytenda, olíufélaganna og til stjórnvalda, á því að menn ætli að fara heiðarlega að í samkeppni.

Ég skora á stjórnarliða að draga þetta frumvarp til baka. Það er mjög vont og það er vont fyrir þjóðfélagið að sett skuli á fót stofnun sem ekki er hafin yfir grun um verið sé að veikja samkeppnislög í stað þess að menn styrki þá löggjöf og sýni að þeir ætli sér að koma á heiðarlegri samkeppni.