Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 16:07:15 (8345)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:07]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Umræða um samkeppnismál hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Menn hafa reynt að draga fram kjarna málsins og við höfum ekki síst lagt á okkur mikla vinnu í umræðum um málið við að draga fram hvers vegna skuli gera þessar breytingar. Hvað er það sem gerir það að verkum að nauðsynlegt er að skipta hlutunum upp á þann hátt sem raun ber vitni? Hvers vegna þarf að leggja niður Samkeppnisstofnun? Hvað er það sem gerir það að verkum að ljúka þurfi starfsferli forstjóra Samkeppnisstofnunar, þ.e. hvers vegna þarf að segja forstjóra Samkeppnisstofnunar upp, sem nýverið upplýsti eitthvert mesta samsæri sem átt hefur sér stað gagnvart neytendum á Íslandi?

Við höfum leitað svara að þessum spurningum. Við höfum leitað svara. Við höfum spurt hvers vegna þurfi að veikja lögin. Hvers vegna þarf að gera þetta núna á þessum tímapunkti? Hvað er það sem kallar á þessar aðgerðir núna?

Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að samkeppnisyfirvöld og allir helstu sérfræðingar í samkeppnismálum komu hvergi nærri undirbúningi frumvarpsins eða vinnunni í aðdraganda þess að frumvarp þetta var samið. Þess í stað var skipuð nefnd, svokölluð viðskiptalífsnefnd — hún hefur fengið það nafn í umræðum um þessi mál. Tillögur hennar hafa sumar hverjar hlotið náð fyrir augum hæstv. viðskiptaráðherra en aðrar ekki. Reyndar náðu aðeins tvær tillögur af þeim sem þessi nefnd skilaði af sér inn í frumvarpið, ef undan eru skildar stjórnsýslubreytingarnar, sem hefur verið dregið skýrt fram í þessari umræðu að engin rök eru í reynd fyrir, forsendur þeirra í besta falli misskilningur og í versta falli þess eðlis að með þeim sé vegið að Samkeppnisstofnun eins og hún er starfrækt í dag.

Það er einnig athyglisvert að í umræðunni hafa aðeins Samtök atvinnulífsins og Verslunarráð staðið vörð um að þetta mál nái fram að ganga. Það er ekki síst athyglisvert í því ljósi að árið 2002, í kjölfar þess að Samkeppnisstofnun fór fræga ferð inn í olíufélögin sem leiddi til niðurstöðu sem flestum er kunnug, sendi Verslunarráðið frá sér gríðarlega harðar athugasemdir og krafðist þess að hæstv. viðskiptaráðherra beitti sér fyrir því að málið yrði fellt niður, að gögnum málsins yrði skilað og rannsókn hafin á nýjan leik. Það er einnig athyglisvert í því ljósi að á þeim tíma var einn þeirra hv. þingmanna, sem hér hefur tekið þátt í umræðunni og talað fyrir þessu máli, starfsmaður Verslunarráðsins. Hann ályktaði á þeim tíma um að málið yrði fellt niður eins og ég rakti áðan og Samkeppnisstofnun skilaði öllum gögnum sem hún hafði sótt inní olíufélögin. Það vekur því athygli að Verslunarráðið skuli hafa gengið hvað lengst í að hvetja til þess að þetta mál gengi í gegn.

Svipuð sjónarmið koma frá Samtökum atvinnulífsins. En þau sömdu árið 2002 sínar eigin hugmyndir, eigin tillögur, drög að nýjum lögum. Þau lögðu fram tiltekinn pöntunarlista um að felld yrðu úr gildandi lögum tiltekin ákvæði. Þar voru samkeppnisráð og c-liður 17. gr. efst á blaði. Það er því ekki nema von að fögnuður ríki í þeim hópum þegar þetta frumvarp er hér til umræðu og skiljanlegt þeir skuli gleðjast yfir því að skuli gengið jafnlangt og raun ber vitni í að veikja samkeppnislögin, leggja niður Samkeppnisstofnun og láta forstjórann fara.

Það þætti sjálfsagt tíðindum sæta einhvers staðar að í framhaldi af því að tiltekin stofnun upplýsi jafnmikið samsæri gegn almannahagsmunum og gert var í þessu tiltekna máli, þ.e. olíumálinu, skuli hún verðlaunuð á þann hátt, hún lögð niður og forstjórinn látinn fara. Þetta er mjög athyglisvert og reyndar ímynda ég mér að slíkt ætti sér ekki auðveldlega stað í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Þetta er ekki fyrsta stofnunin sem sett er af eftir að ríkisstjórnin hefur gert athugasemdir um starfsemi þeirra. Þeirra stofnana hefur verið minnst við þessa umræðu og ástæðulaust að telja þær upp enn og aftur.

Það var merkilegt sem hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson dró fram í umræðunni fyrr í dag. Hann benti á að hæstv. viðskiptaráðherra svaraði því til fyrir ekki margt löngu að engin stjórnsýsluúttekt hefði farið fram á starfsemi Samkeppnisstofnunar. Í raun hefur engin úttekt farið fram á því hvort starfsemin virkar sem skyldi eða ekki. Það er líka athyglisvert að enginn ræddi við samkeppnisyfirvöld þegar málið sem hér er verið að ræða var undirbúið. Þessi niðurstaða virðist því fengin án nokkurrar rannsóknar og það er afar athyglisvert.

Mér finnst mikilvægt að nefna það einnig við þessa umræðu að í sjónvarpsþætti í morgun átti ég orðaskipti við hæstv. viðskiptaráðherra um þessi tilteknu mál, sem er kannski í fyrsta skiptið sem hæstv. viðskiptaráðherra tjáir sig efnislega um hvers vegna lögin eru veikt á þann hátt sem raun ber vitni.

Þar sagði hæstv. viðskiptaráðherra í umræðu um þetta tiltekna atriði svo, með leyfi forseta:

„Þetta ákvæði sem tekið er út, það er galopið og ég segi að það er ekki góð stjórnsýsla að yfirvöld, stofnun úti í bæ, geti farið inn í fyrirtæki án þess að þau hafi brotið af sér.“

Hér er reyndar einhver misskilningur uppi hjá hæstv. viðskiptaráðherra því það ákvæði, c-liður 17. gr., felur ekki sérstaklega í sér leitarheimildir eða að hægt sé að fara inn í fyrirtæki án dóms og laga. En það sem er efnislegt í þessu er að hæstv. ráðherra sagði að þetta væri galopið ákvæði og því væri mikilvægt að fella það brott þar sem það að þetta ákvæði væri í lögum gerði það að verkum að heimildir til þess að fara inn í eða gera athugasemdir við starfsemi fyrirtækja væru mjög ríkar. Þar af leiðandi var hæstv. ráðherra í reynd að viðurkenna að hér er verið að veikja lögin. Reyndar sagði hæstv. ráðherra meira um þetta. En þetta er í stuttu máli kjarni þess sem þar kom fram. Þó má segja sem svo að í umræðunni hafi það verið dregið fram að hér er verið að veikja lögin og leggja Samkeppnisstofnun niður án þess að nokkur vinna hafi kannski í reynd farið fram um það hvort þetta sé nauðsynlegt eða að nokkur rannsókn hafi farið fram á núverandi starfsemi.

Það breytir ekki hinu að farið er að sjá fyrir endann á þessari umræðu og í efnahags- og viðskiptanefnd kom það skýrt fram hjá starfsmönnum samkeppnisyfirvalda og eins Löggildingarstofu að þessar breytingar hafa skapað mikinn óróa hjá starfsmönnum sem þeir vilja að ljúki sem fyrst og starfsmennirnir fái þá umhverfi eða niðurstöðu sem þeir geti búið við þannig að þessu óöryggi linni, ef svo má að orði komast. Þetta sögðu starfsmenn hvort tveggja, bæði fyrir nefndinni og eins í fjölmiðlum, og töldu afar mikilvægt að þessu óöryggi eða ástandi linnti sem fyrst. Meðal annars af þeim sökum og kannski ekki síst sökum þeirrar kveðju sem forstjóra Samkeppnisstofnunar er send með því að leggja stofnunina niður og setur í raun stöðu hans í uppnám í ljósi þess sem á undan er gengið, í ljósi þess að hann hefur haft forustu um að upplýsa mesta samsæri gegn almenningi sem um getur á síðari árum a.m.k., þá höfum við hv. þingmenn, sá er hér stendur, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Sigurjón Þórðarson lagt fram svohljóðandi tillögu sem við vonumst til að verði samþykkt og kannski tryggi að slá megi á þann ótta og óróa og óöryggi sem nú er innan Samkeppnisstofnunar.

Tillagan er efnislega samhljóða ákvæði sem var í samkeppnislögum árið 1993 þegar þau voru sett. Var þá reyndar önnur ríkisstjórn við völd, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Í þeim lögum var ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þáverandi verðlagsstjóri gæti, ef hann óskaði eftir því, tekið sjálfur við sem forstjóri Samkeppnisstofnunar. Því leyfum við okkur, fjórir hv. þingmenn, að leggja fram tillögu sem bætist við ákvæði til bráðabirgða. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Núverandi forstjóra Samkeppnisstofnunar verður heimilt, kjósi hann svo, að taka við sem forstjóri nýs Samkeppniseftirlits. Ákveði hann að taka stöðuna skal hann tilkynna það nýrri stjórn Samkeppniseftirlitsins um leið og hún hefur verið skipuð.“

Hér er fyrst og fremst, eins og ég nefndi, verið að reyna að tryggja að hægt sé að slá á það mikla óöryggi sem nú er uppi í stofnuninni um framtíðina þannig að starfsmenn sjái að einhver stöðugleiki verði eftir vegna þess að það er náttúrlega stóralvarlegt mál að rífa upp með rótum skipulag sem virkar til þess eins að setja eitthvert annað skipulag á sem umræðan hér hefur dregið fram að er á engan hátt til þess fallið að efla samkeppniseftirlit og samkeppnislög eins og þó er stefnt að ef marka má orð í greinargerð með því frumvarpi sem við hér ræðum.

Við leggjum þessa tillögu fram og vonumst til þess að þetta litla framlag af okkar hálfu geti orðið til þess að slá á það óöryggi sem nú ríkir og kannski gera það að verkum að sjálfstæði forstjóra verði þá áfram svipað eða sambærilegt og það hefur verið. Alþingi tók þessa ákvörðun á sínum tíma og því er ekkert óeðlilegt að Alþingi geri það aftur nú því að í þessari umræðu sem fram hefur farið hefur verið lögð á það mjög rík áhersla að staða forstjóra Samkeppniseftirlits verði mjög sjálfstæð.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem flutti ræðu um það atriði hér áðan lagði einmitt á það gríðarlega ríka áherslu að að óbreyttu, verði frumvarpið samþykkt óbreytt, muni staða forstjóra hins nýja Samkeppniseftirlits ekki verða nándar nærri eins örugg og ekki hafa nándar nærri sama sjálfstæði og staða þess forstjóra sem nú situr. Því leggjum við þessa litlu tillögu fram.

Svona að lokum í þessari umræðu, virðulegi forseti, vil ég segja að þó að ég sé fullur efasemda um þá leið sem ákveðið hefur verið að fara þá vonast ég til þess samt sem áður að eitthvað gott kunni út úr þessu að koma þegar upp er staðið. Ég vonast til þess að sá ótti sem manni býr í brjósti um að forsendur fyrir þessum breytingum haldi ekki eigi ekki við rök að styðjast. Um leið segi ég að mjög vandlega verður fylgst með hvernig framtíðin verður í vinnslu þessa máls og vonast ég til þess að sú mikla vinna sem fram hefur farið undanfarin tíu, ellefu ár verði ekki eyðilögð með hugmyndum eins og þeim sem hér er hugmyndin að samþykkja.