Lánasjóður landbúnaðarins

Þriðjudaginn 10. maí 2005, kl. 22:16:11 (8502)


131. löggjafarþing — 131. fundur,  10. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[22:16]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Samfylkingin ítrekar gagnrýni sína á verkstjórn hæstv. landbúnaðarráðherra og bendir á að mikilvæg mál eru að koma til þings löngu eftir að tilskilinn frestur er útrunninn og tími til eðlilegrar umfjöllunar er því óeðlilega skammur.

Hagsmunaaðilar hafa einnig gagnrýnt að málefni Lánasjóðs landbúnaðarins skuli jafnseint fram komin og raun ber vitni, mörgum vikum eftir að ráðherraskipuð nefnd skilaði af sér. Málefni lánasjóðsins þarfnast skjótra úrlausna. Jafnframt er um að ræða margvíslega hagsmuni sem ákjósanlegt hefði verið að nefndarmenn gætu kynnt sér betur og leitað álits á. Vegna tímaskorts var málið ekki sent út til umsagnar og því ekki tryggt að mikilvæg sjónarmið næðu fram.

Í ljósi þess hvernig málefni sjóðsins hafa þróast á undanförnum mánuðum mun Samfylkingin þrátt fyrir allt styðja framgang þessa frumvarps í trausti þess að bændum verði tryggð sambærileg lánafyrirgreiðsla, óháð því hvernig þeir eru í sveit settir eða hvaða búgrein þeir stunda.