Samkeppnislög

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 21:35:32 (8670)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[21:35]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom við atkvæðagreiðslu í dag getur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki stutt þetta frumvarp. Reyndar höfum við gagnrýnt það mjög harðlega, bæði að efnisinnihaldi og ekki síður þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við smíði frumvarpsins. Þá höfum við lýst því yfir að það er nauðsynlegt að halda skæru kastljósi á stofnanir sem hér er um að ræða og munum við að sjálfsögðu gera slíkt.

Þá vil ég minna á að í 26. gr. þessa frumvarps er ákvæði sem framselur dómsvald út úr landinu. Við höfum gagnrýnt þetta og bent á gagnrýni sem fram hefur komið frá laganefnd Lögmannafélags Íslands og frá Stefáni Má Stefánssyni, prófessor í lögum. Vísa ég í rökstuðning sem kemur fram í áliti 2. minni hluta með þessu frumvarpi og röksemdir sem hafa hvað þetta snertir komið fram í umræðunni af okkar hálfu. Þess vegna munum við núna greiða atkvæði gegn frumvarpinu.